Um kveðskap kvenna og varðveislu hans

Höfundur:

[Byggt á erindi sem fyrst var flutt 19. júní 1997 á Dansk-íslensku málþingi um handrit sem haldið var á vegum Stofnunar Árna Magnússonar]
 

Helsta markmið hefðbundinna handritarannsókna hefur löngum verið að útbúa traustar vísindalegar útgáfur þar sem útgefandi reynir að birta þann texta sem er upprunalegastur og sem næst frumgerð verksins. Textar í handritum eru flokkaðir eftir því hversu nálægt frumgerð þeir eru taldir vera og því fjarskyldari frumgerðinni sem texti er, þeim mun minni athygli er hann talinn verðskulda. Á síðustu árum hafa verið skrifaðar bækur og greinar þar sem fram koma aðrar hugmyndir og áherslur í þessum fræðum, stundum kenndar við social textuality eða new philology þar sem áhuginn beinist einkum að félagslegu samhengi textans og menningarsögulegu hlutverki handritsins. Þar er sem sagt ekki verið að leita að hinum eina rétta texta eða hinu eina sanna handriti heldur er leitað svara við því hvers vegna handritið hafi verið skrifað, hvers vegna það varðveiti einmitt þetta efni og hverjum það hafi verið ætlað. Þetta hefur dregið fram það sem mörgum er nú að verða ljóst að fyrr á öldum voru menn ekki nærri eins uppteknir af höfundi textans og nútímamenn eru og því síður litu þeir svo á að einn texti væri réttari en annar. Breytingar á texta eru oft með vilja gerðar til að þjóna ákveðnum tilgangi og geta þannig verið athyglisverðar í sjálfum sér. Þannig geta textar í handritum sem augsýnilega eru fjarri frumgerð verksins orðið áhugavert rannsóknarefni.

Þessar athuganir hafa meðal annars dregið fram hlut kvenna í tilurð og varðveislu handrita. Í nýlegri bók (Marotti 1995) sem fjallar um handrit og félagslegt hlutverk þeirra á Englandi á endurreisnartímanum er dregið fram að konur koma oft við sögu þegar handrit eru annars vegar, handrit voru mörg hver í eigu kvenna og stundum höfðu þær áhrif á hvaða efni var skrifað upp og hvernig því var raðað saman. Talið er að það séu einkum tvær ástæður til þess að konur gegna talsvert mikilvægu hlutverki í handritasögunni á Englandi, annars vegar að konur áttu erfitt með að fá verk sín prentuð og hins vegar að handritin voru tengdari einkalífi fólks, fjölskyldu og heimili en prentaðar bækur. Í sömu bók er því varpað fram að hin nýju kvennafræði hafi ekki gefið fyllilega rétta mynd af hlut kvenna í ritmenningunni vegna þess að þar sé yfirleitt miðað við prentað efni en litið fram hjá handritum. Ætla má að það sé enn meiri ástæða til þess í rannsóknum hér á landi að rannsaka tengsl kvenna og handrita vegna þess að hér er hlutfallslega mun meira efni varðveitt í handritum en í prentuðum bókum.

Flestir vita að mörg íslensk handrit hafa verið í eigu kvenna. Fasteignir eins og jörð og býli komu helst í hlut karla en lausafé, þar á meðal handrit, erfðust gjarnan í kvenlegg. Nefna má handrit að Davíðssálmum, GKS 1606 4to, sem talið er ritað um 1300. Það var upphaflega í eigu Kristínar, dóttur hins norska konungs Hákonar Hákonarsonar. Eigendur handritsins næstu 150 árin eru allir af sömu aðalsætt: Ingeborg Erlingsdatter, Elin Toresdatter, Ingeborg Erlingsdatter, Håkon Sigurdssön og loks eiginkona hans, Sigrid Erlendsdatter (sbr. Kålund 1900:37). Annað dæmi er AM 152 fol. sem Árni Magnússon fékk frá Elínu Hákonardóttur sem erfði það eftir móður sína, Helgu Magnúsdóttur í Bræðratungu (Kålund 1889:106).

Vissulega var litið svo á að skriftir væru fyrst og fremst karlmannsverk en konur hafa þó stundum átt þar hlut að máli eins og handritafræðingar hafa bent á, t.d. Stefán Karlsson sem fjallað hefur um handrit að Margrétarsögu sem faðir skrifaði handa dóttur sinni (Stefán Karlsson 1989). Handritarannsóknir geta einnig dregið fram í dagsljósið að kvæði sem fræðimenn höfðu verið sannfærðir um að karlmaður hefði ort er í raun og veru eftir konu. Þannig hefur danski handritafræðingurinn Jonna Louis-Jensen sýnt fram á að Landrésrímur sem ortar munu á 15. öld hljóta að vera eftir konu en ekki karlmann eins og alltaf hafði verið talið (Jonna Louis-Jensen 1992).

En jafnvel þótt konur séu margar nefndar á nafn í handritum er þeirra flestra getið sem eigenda handrita en ekki sem höfunda. Steinunn Finnsdóttir í Höfn er ein af fáum íslenskum skáldkonum sem nafnkunnar eru frá fyrri tíð. Athyglisvert er hve fá handrit með kveðskap hennar eru varðveitt. Í Árnasafni er aðeins eitt handrit með kvæðum Steinunnar, AM 146 b 8vo, skrifað 1707 fyrir Árna Magnússon. Í Landsbókasafni eru fimm handrit en þau eru yngri og hafa ekkert efni umfram það sem er í Árnasafnshandritinu nema rímur sem reyndar er óvíst að Steinunn hafi ort. Það lítur því út fyrir að hefði Árni Magnússon ekki beinlínis óskað eftir því að kvæði hennar yrðu skrifuð upp, hefði hvorki varðveist af þeim tangur né tetur. Önnur kona sem uppi var um svipað leyti og Steinunn og vitað er að fékkst eitthvað við skáldskap var Hildur Arngrímsdóttir (1646-1724), dóttir Arngríms lærða og móðir Páls Vídalíns. Um kveðskap hennar verður fjallað síðar í þessari grein. Hún hefur líka kunnað að segja sögur því að Árni Magnússon lét skrifa upp eftir henni ævintýri eitt, líklega hið fyrsta sem fært var í letur á Íslandi beint eftir sögumanni. Það er kallað Brjáns saga og aftan við hefur Árni skrifað: "Þessi skröksaga er uppskrifuð eftir Hildi Arngrímsdóttur í Hvammi anno 1707" (AM 602 d 4to; Kålund 1889:771).

Nokkur íslensk handrit eru skrifuð fyrir konu eða eftir hennar fyrirmælum. NKS 11 fol. frá síðari hluta 16. aldar hefur meðal annars að geyma "Mindedigt over Guðrún Árnadóttir med forudgående indledning, hvoraf ses, at bogen er skrevet efter hendes opfordring" (Kålund 1900: 86). Einnig Ulddall 320 4to: "Eptter Bon og forlægi Haullu Grimzdotter systur minnar" (Kålund 1900: 397). Konur sem voru af ríkum og valdamiklum ættum á Íslandi voru Árna Magnússyni oft innan handar um að útvega honum handrit. Ein þeirra var Elín Þorláksdóttir, dóttir Þorláks Skúlasonar biskups á Hólum. Í Wolfenbüttel í Þýskalandi er varðveitt lítil bænabók sem starfsmenn safnsins höfðu talið sænska að uppruna en reyndist vera skrifuð handa Elínu sem síðan hafði gefið bókina frænku sinni og nöfnu, Elínu Hákonardóttur sem gaf hana Vigfúsi, bróður sínum, þegar hann hélt til náms erlendis.

Vissulega ríkja karlmenn á þessum tíma yfir hinu ritaða orði eins og öðru og hafa löngum gert. Þó má fullyrða að það glitti oftar í konur en búast hefði mátt við. Eins og áður segir hefur verið bent á að það gæti verið gagnlegt og beinlínis breytt niðurstöðum kvennafræðinga að huga meira að handritamenningunni (Marotti 1995:49). Handrit voru meira tengd heimilum og fjölskyldulífi en prentaðar bækur og þess vegna munu konur hafa átt greiðari aðgang að þeim og jafnvel átt auðveldara með að hafa áhrif á tilurð þeirra.

Handrit sem verið hafa í eigu kvenna væri áhugavert að taka sérstaklega til athugunar. Í grein um íslensku prestskonuna á fyrri öldum fjallar Guðrún Ása Grímsdóttir um nokkur sálmahandrit sem prestskonur hafa átt (Guðrún Ása Grímsdóttir 1996:242-244). Eitt þessara handrita (NKS 56 d 8vo) var í eigu Ragnheiðar Jónsdóttur, biskupsfrúar á Hólum sem var þriðja kona Gísla Þorlákssonar (Jón Halldórsson 1911-1915:122). Það er skrifað þar árið 1676 af konu eins og sjá má af upphafsstöfum í handritinu: J.H.D (Guðrún Ása Grímsdóttir 1996:242). Á Landsbókasafni er varðveitt handrit sem einnig er skrifað á Hólum sama ár handa konu sem þá var 26 ára gömul. Það er JS 204 8vo. Titilblaðið er skrautritað og mjög fallegt og fremst í handritinu er kvæði sem skrifarinn, Árni Geirsson, hefur ort til konunnar sem handritið er ætlað, Önnu Jónsdóttur, en hún var systir biskupsfrúarinnar, Ragnheiðar. Kvæðið er sem sagt tileinkun, hrós og lof um konuna þar sem einnig kemur fram að handritið er gjöf til hennar. Fróðlegt er að huga nánar að efni handritsins. Það hefst á kvæði eftir konu sem engar heimildir eru um að hafi fengist við að yrkja, Helgu Jónsdóttur, sem var reyndar systir þeirra Önnu og Ragnheiðar (sbr. Margrét Eggertsdóttir 1997).

Kvæðið sem er 18 erindi hefur fyrirsögnina "Raunatal Helgu Jónsdóttur við sinn herrann Christum í ljóðum læst og í sálmvísur snúið af henni" og er ekki með hendi skrifarans, Árna Geirssonar. Það er því alls ekki fráleitt að Helga hafi sjálf skrifað kvæðið eigin hendi. Kvæði Helgu er raunatal eins og segir í fyrirsögn. Þannig röktu konur raunir sínar í ljóðum til forna; titillinn minnir á tregróf eins og Guðrúnarkviður eða Oddrúnargrát (sbr. Helga Kress 1997:18). Kvæði Helgu Jónsdóttur er hins vegar afar ólíkt hinum fornu kvæðum því að það er sálmur, ein samfelld bæn til Guðs, og þar er ekki greint frá neinum æviatriðum, sorginni er lýst en hvergi kemur nákvæmlega fram hvað veldur henni.

Helga var tvígift. Fyrri maður hennar var Teitur Torfason, ráðsmaður í Skálholti. Þau Helga voru barnlaus en utan hjónabands átti Teitur tvö börn, annað í lausaleik 1656 en fékk uppreisn 1658. Þá var Helga tvítug og um þetta leyti hafa þau hugsanlega gift sig. Fyrir annað barneignabrot sitt fékk hann svo uppreisn fjórum árum síðar, 1662. Það kemur einnig fram í heimildum að Helga tók að sér launson Teits, þann sem hann átti í síðara skiptið og kom honum í Hólaskóla.

Nú er ekki gott að segja hvort það var hjónabandið sjálft, barnleysið eða barneignir eiginmannsins utan hjónabands, það að hún missti hann eða allt þetta sem er tilefni kvæðisins. Það er eins og áður segir varðveitt í handriti sem var skrifað árið 1676 en þá voru átta ár liðin síðan Teitur maður hennar lést. Hún gefur í skyn á einum stað í kvæðinu að það sé fleira en eitt sem hún hafi þurft að þola: "alkunnug þér frá upphafi er / mín ævin þver / það eina eftir öðru fer". Í upphafi kvæðisins lýsir hún sjálfri sér sem smárri, aumri barnkind "kúrandi víst í köldum kvist" og biður Krist að líta til sín og miskunna sér. Eins og algengt er í sálmum kvenna frá þessum tíma ávarpar hún Krist sem brúðguma og lýsir sér sem brúði hans. Hún segir í 14. til 17. erindi:

Em eg nú næsta af sorgum södd

sú kemur tíð að ég verð glödd

þá brúðguminn með blómleik sinn

hér brunar inn,

blessaður ertu það, Jesús minn.

Rykkir þú mér úr sorgar sekk

og setur mig upp á hægri bekk,

gott gæfulag mér gengur í hag

þann góða dag,

gleðinnar fæ ég þá besta plag.

Biður sinn Guð með sárri sút

sú sem að leysti orða hnút

að bæn sú hér er beðin af mér

þá bölið sker,

blessaður láti þóknast sér.

Með tárum bind ég endann á

erindin þessi stirð og fá,

tak þér að hjarta einföld orð

með ástargjörð

af breyskri þinni brúði á jörð.

Síðar giftist Helga Þorsteini Geirssyni, sem var rektor í Hólaskóla 1673-1683 sem þýðir að hann hefur verið á Hólum einmitt þegar handritið er skrifað, kannski hrifist af Helgu fyrir það hvað hún var skáldmælt! Hann varð svo prestur í Laufási og þar bjuggu þau, Helga og hann, en börn eignuðust þau ekki. Þorsteinn var talinn "vel að sér, gáfumaður mikill og heppinn læknir" (Páll Eggert Ólason 1952:202).

Handritið er eins og áður segir skrifað handa ungri, ógiftri konu og það er því forvitnilegt að athuga hvaða efni það hefur að geyma, hvort það geti veitt upplýsingar um hvað ungar heldri manna dætur á síðari hluta sautjándu aldar höfðu áhuga á að lesa eða áttu að lesa. Í stuttu máli sagt eru í handritinu ýmiss konar heilræði en einnig talsvert af morgunsálmum og kvöldsálmum sem fólk og ekki síst konur hafa eflaust farið með eða sungið kvölds og morgna. Svo er þarna svokölluð barnabæn. Þá eru bænir á dönsku ætlaðar þeim sem hyggja á hjónaband: "En mands eller qvindis persøns bøn som acker at gieffe sig i eckeskaff", svo og ferðabænir á dönsku. Kannski hefur átt að slá þarna tvær flugur í einu höggi, kenna dönsku og veita uppbyggilega fræðslu í leiðinni. Á íslensku er í handritinu ritgerð eða grein um hjónabandsskyldurnar. Þá eru mjög kostulegar ráðleggingar í bundnu máli um borðsiði sem nefnast "Jóhannes forskrift um góða borðsiði" þar sem lögð er áhersla á hreinlæti, að halda fyrir munninn þegar maður hóstar og þurrka ekki hor með fingrunum o.s.frv. Loks má nefna kvæði og sálma eftir ættingja þeirra systranna, föður þeirra, Jón Arason prófast í Vatnsfirði sem yrkir m.a. erfiljóð eftir Teit, fyrri eiginmann Helgu. Og kvæði eftir bróður þeirra, Magnús Jónsson í Vigur, sem var þekktur fyrir að safna, skrifa og láta skrifa handrit. Þannig má segja að efnið sé allt í eðlilegum tengslum við konuna sem átti það.

Áhugavert rannsóknarefni er einnig að athuga í hvaða handritum kveðskapur kvenna er varðveittur. Algengt er að einn og einn sálmur eftir konu slæðist með í sálmahandrit, sérstaklega þau eldri. Áhugi á kveðskap eftir konur eykst greinilega á nítjándu öld eins og sjá má af uppskriftum í handritum. Þannig eru varðveitt kvæði eftir sjö konur í handriti sem Páll Pálsson stúdent hefur skrifað (Lbs 162 8vo) og reyndar má geta þess að annað efni í handritinu hlýtur að flokkast undir hálfgerðan neðanjarðarkveðskap, þ.e. skólakveðskapur, alls kyns gamankvæði og grín sem erfitt er að botna í lengur, grýlukvæði o.s.frv. Athyglisvert er að í þessum nítjándu aldar handritum eru kvæði kvenna oft skrifuð upp saman eins og þau tilheyri sérstökum flokki. Í öðru handriti sem sami Páll hefur skrifað (Lbs 167 8vo) er fremst efnisyfirlit og þar eru nefndir margir karlhöfundar en loks segir: "svo og kvennaljód - aptanvid" og þegar flett er aftarlega í handritinu kemur þar annað sérstakt efnisyfirlit með nöfnum skáldkvennanna sem eru í raun furðu margar eða alls átján talsins.

Sú nýja stefna í handritarannsóknum sem áður er nefnd hefur meðal annars vakið athygli á þeim kveðskap í handritum sem kalla má svarkvæði (e. answer poetry), það eru kvæði sem ort eru sem svar við því kvæði sem skrifað er upp í handritinu. Oft er þetta bara ein vísa þar sem skrifarinn segir skoðun sína á kvæðinu á undan, stundum er reyndar næstum því hægt að tala um ritdeilur í formi slíkra kvæða, þ.e. kvæði eru ort hvert á eftir öðru með eða á móti einhverjum kveðskap eða einhverri skoðun sem þar kemur fram. Kvæði af þessu tagi veita að sjálfsögðu mikilvægar upplýsingar um viðtökur kveðskapar. Fyrir nokkrum árum veitti ég athygli kvæði sem mér fannst mjög merkilegt sem viðbrögð við kveðskap eftir konu. Því miður er kvæði konunnar þó ekki varðveitt svo ég viti, a.m.k. ekki í þessu handriti, JS 471 8vo. Reyndar er þar kvæði eftir Steinunni Finnsdóttur "Veittu Drottinn góður gæði" og það væri vissulega merkilegt ef hægt væri að sýna fram á að kvæði þetta væri ætlað henni. Það verður hins vegar að teljast ólíklegt vegna þess að (a.m.k. þetta) kvæði Steinunnar er trúarlegs eðlis og hefur varla kallað á viðbrögð sem þessi.

"Svarkvæðið" hefur fyrirsögnina: "Gamansþökk braghagri stúlku send fyrir hennar ljóðmæli." Samkvæmt handritinu er höfundur þess Benedikt Jónsson (1664-1744) prestur í Bjarnanesi og samtímamaður Steinunnar. Það er 15 erindi og hefst og lýkur á nokkuð vingjarnlegan hátt en í raun er efni þess að lýsa því hversu hörmulegar afleiðingar það hefur ef kona yrkir kvæði. Það er ekki nóg með að mannfólkið bresti í grát og falli í yfirlið, dýrin finna líka að eitthvað hefur farið úrskeiðis og sjálf náttúran bregst við á þann hátt að ekki er hægt að tala um annað en náttúruhamfarir: Snæfellsjökull gengur á haf út, Hekla dettur á hliðina og Drangey sekkur í kaf svo nokkuð sé nefnt. Og það er engin leið að túlka þetta á jákvæðan hátt þannig að kvæði hennar hafi svona mikil og djúp áhrif því að það segir berum orðum að kvæði hennar hafi orðið til skaða. Það er með öðrum orðum gefið í skyn að það sé andstætt náttúrunni og lögmálum hennar að kona yrki kvæði:

10.

Nautin orga næsta þyrst

numin frá öllu viti,

hross um torgið hlaupa byrst,

hef ég nú borgað ljóðin fyrst.

11.

Fleiri bagar falla hér,

fólkið klagar skaða

því aflaga flestallt fer

farir þú brag að smíða mér.

Með þessum orðum er gefið til kynna að konan hafi ort ljóð beinlínis til þess sem yrkir. Hugsanlega hefur hún ort til hans ástarljóð, kannski er það sú ósvífni sem honum blöskrar svo mjög. Vafalaust er mjög óvenjulegt að finna kvæði sem sýnir viðbrögð sem þessi við kveðskap eftir konu. En sú staðreynd að kvæði hennar hefur ekki varðveist veldur því að aðeins er hægt að segja söguna til hálfs, tilefnið vantar, en að kvæðið skuli vera týnt segir líka sína sögu.

Þess má líka geta að það er hæðst að stúlkunni í kvæðinu með því að tala um "ljóðin snjöll" og kalla hana "skálda sprund". Þessi viðbrögð minna á frásögnina af Rannveigu dóttur Þórðar Magnússonar skálds á Strjúgi sem sagt var að hefði ort eina af rímunum í Rollantsrímum meðan hún hrærði í grautarkatli en föður hennar mislíkaði við hana því að honum þótti sú ríman sem hún orti best gerð og gaf henni utan undir að launum (Páll E. Ólason 1926:585; Helga Kress 1997:23).

Annað rannsóknarefni sem vert væri að taka til athugunar eru kvæði ort til kvenna en þau eru fjölmörg, einkum tækifæriskvæði, ort í tilefni fæðingar, giftingar eða dauða, þ.e. erfiljóð. Nefna má sem dæmi kvæði eignað Hallgrími Péturssyni sem ort er til konu í tilefni þess að hún hefur verið svikin í tryggðum en efni þess er einkum að stappa í hana stálinu og sannfæra hana um að þetta hafi ekki verið henni að kenna og hennar bíði eflaust björt og betri framtíð. Upphaf þess er: "Sæl vertu, sæl í Drottni" og er það ort til og sent Guðríði Stefánsdóttur, dóttur Stefáns Hallkelssonar (1601-1659), prests á Nesi við Seltjörn. Það er m.a. varðveitt í JS 231 4to sem er skrifað á 18. öld.

Kveðskapur eftir konur varðveitist stundum án þess að höfundar sé getið eða kvæðin eru ranglega eignuð körlum eins og stundum hefur komið í ljós þegar farið er að rannsaka þau nákvæmlega. Ástæða þessa er bæði sú að fyrr á öldum þótti það alls ekki eins mikilvægt og síðar varð hver væri höfundur kvæðis og svo hins vegar að það þótti tæplega viðeigandi að konur væru að yrkja. Það hlýtur reyndar að hafa verið umdeilt og þótt sumir hafi fordæmt slíkt hafa aðrir sjálfsagt mælt því bót. Ef dæma má af því hvernig talað er um Steinunni Finnsdóttur í heimildum hefur hún hlotið einhverja viðurkenningu fyrir skáldskap sinn en það heyrir eflaust til undantekninga. Handrit sem nefnt hefur verið Kvæðabók úr Vigur (AM 148 8vo) hefur t.d. að geyma nokkur kvæði eftir konur og er líklegt að í slíku umhverfi, í fjölskyldu sem var menntuð og rík, hafi ekki verið amast við að konur fengjust við að yrkja. Á hinn bóginn má alltaf greina í kveðskap kvenna þá tilfinningu að þær séu utangarðs og hljóti ekki viðurkenningu.

Heimildir eru um að Hildur Arngrímsdóttir hafi ort sálma til heilagrar þrenningar en svo virðist sem þeir hafi ekki varðveist því að í handritum eru aðeins lausavísur eignaðar henni. Hildi lýsti Jón Ólafsson úr Grunnavík fullur aðdáunar svo, að hún hefði verið "hin frábærasta skynsemdar og rausnarkona" sem hann hefði nokkurn tíma þekkt eða haft afspurn af. Hann segir að hún hafi gert margar liðlegar stökur sem hann eigi uppteiknaðar (uppskrifaðar) og fullyrðir að hún hafi gjört þrjá sálma til heilagrar þrenningar (Add. 3 fol.:156). Vísur Hildar eru varðveittar í Landsbókasafni í handritinu Lbs 360 8vo sem geymir þó einkum lausavísur eftir son hennar, Pál Vídalín. Þar skrifar Jón úr Grunnavík að Hildur hafi gert nokkra sálma "sem hún lét upp skrifa og eptir hana voru. Fleiri gerði hún vísur, þó ei viti ég" (Jón Þorkelsson 1897:182). Fjögur önnur handrit, einnig í Landsbókasafni, geyma vísur Hildar en þau eru í raun aðeins uppskriftir áðurnefnds handrits.

Því miður eru lausavísurnar sem varðveist hafa eftir Hildi Arngrímsdóttur fáar en veita engu að síður dálitla innsýn í líf hennar. Ein þeirra er heillaósk til vinkonu hennar í tilefni þess að hún hefur eignast son. Hildur átti sjálf nokkur börn en tvö hin fyrstu missti hún þegar þau voru mjög ung. Jón Grunnvíkingur segir að sig minni að Guðrún hafi heitið það barn sem hún tregaði mikið (Jón Þorkelsson 1897:xxxv). Vísan er falleg og hún sýnir líka kunnáttu í skáldskaparfræðum því að ort er undir dróttkvæðum hætti, því afbrigði sem Snorri kallar dunhent en er einnig þekkt sem stílbragð í mælskufræðum og kallað anadiplosis, það er að endurtaka orðstofn í lok línu í upphafi næstu línu. Hún hljóðar þannig:

Son þinn best að sönnu

sannheilagur annist

annist þýðan þrennur

þrennur og allt gott kenni

kenni þeim menntir manni

mannvit auki þannin

þannin ljóðin linni

linni ei gæfu þinni.

Þarna kemur fram ósk um að sonur vinkonu hennar læri góðar menntir og aukist þannig að mannviti en það er einmitt sagt um Hildi að hún hafi sjálf sagt Páli syni sínum til í æsku og verið "altíð mest fyrir framan um kenslu hans og læring" eins og Jón Grunnvíkingur orðar það (Jón Þorkelsson 1897:xxxviii). Tvær vísnanna sem varðveist hafa eftir Hildi eru ortar til vinnumanna og tengjast daglegum störfum og í báðum er gamansamur tónn og jafnvel dálítið háð. Önnur er svar til Dags Bjarnasonar, en hann var vinnumaður í Víðidalstungu, þar sem Hildur bjó, og var samkvæmt handritinu kominn að sunnan, "tóbaksmaður og vel hagmæltur". Hann hélt sig vera og vildi láta halda son sr. Hallgríms Péturssonar. Hann er staddur úti á engjum og sendir Hildi vísu þess efnis að sig vanti tóbak og sé beinlínis að verða óvinnufær af tóbaksleysi: "segðu það blíðri silkiey / að slættinum taki að halla." Hann ávarpar hana með kenningu, kallar hana silkiey sem merkir kona. Í svari Hildar skín í kímnigáfu hennar en um leið að hún er ákveðin húsfreyja sem lætur vinnumanninn ekki snúa á sig. Hún lætur senda honum tóbak og þessa vísu þar sem hún ávarpar hann með karlkenningu, kallar hana tjörguvið:

Nú er ekki tóbak til,

tjörguviðurinn snjalli,

segðu Degi söm á skil

að sendingunum halli.

Loks er ein vísa sem reyndar er líka eignuð Páli, syni Hildar:

Ekki er Einar Kalmann klæddur,

kostum er hann mörgum gæddur,

viti menn!

Sá er lítt við hegning hræddur,

hallar hann sér á koddann mæddur,

sefur hann enn.

En hvar eru sálmar Hildar til heilagrar þrenningar? Það veit víst enginn – en í Kvæðabók úr Vigur er varðveitt kvæði sem kallast Náðasvæfill (í öðrum handritum t.d. ÍB 105 4to er það nefnt Kvöldsvæfill eða Kvöldbrynja, t.d. Lbs 1059 8vo og JS 495 8vo, sbr. Jón Helgason 1955:46). Það hefst þannig: "Heilög þrenning háloflig / hlustaðu til, ég beiði þig" og þar talar kona eins og Jón Helgason prófessor í Kaupmannahöfn bendir á í inngangi að ljósprentaðri útgáfu handritsins. Kvæðið er ort til að fæla burt illar vættir að kvöldlagi, eins konar kvöldsálmur. Það er reyndar svo í þessu kvæði að ljóðmælandi talar í fyrstu um sig í karlkyni og segir: "Kem eg nú til þín kaldur og ber / kveinandi mig því syndugur er" en síðar í kvæðinu segir: "Sæng er mín, þó sofi ég ein / síðan Krists og hans undin hrein ...". Orðið ein er rímorð, rímar við hrein, svo að þannig hlýtur erindið að vera upphaflega. Helga Kress hefur bent á að konur forðist oft í kveðskap að tala um sjálfar sig í kvenkyni, tali jafnvel frekar um sig í karlkyni. Svo virðist sem kona hafi ort þennan kvöldsálm og tali óvart um sig í kvenkyni án þess að hafa ætlað sér það. Síðar er tekið fram eins og til afsökunar að bæði konur og karlar geti farið með kvæðið: "Til afls og styrks sem orka ljóð / yfir oss dreifist Kristí blóð, / hvort það kveður karl eður fljóð / komi yfir þá værðin góð." Einnig er athyglisvert að í lokin er beðið fyrir öllum á heimilinu; bóndanum, kvinnunni, börnum og hjúum en í kvöldsálmum má oft greina að karlmaður talar og yrkir því að hann biður fyrir konu sinni, börnum og hjúum en nefnir ekki sjálfan sig.

Nú er að vísu engin leið að fullyrða að kvöldsálmur þessi sé eftir Hildi Arngrímsdóttur þótt hann sé ortur af konu. Hins vegar má benda á að það voru fjölskyldutengsl milli Hildar og Magnúsar Jónssonar í Vigur sem lét skrifa handritið. Hálfsystir Hildar (Helga) var gift Birni (Magnússyni) afabróður Magnúsar Jónssonar og sjálfur var Magnús tengdafaðir Páls, sonar Hildar. Rannsóknir á erlendum handritum hafa sýnt að kveðskapur kvenna varðveitist helst í handritum sem geymst hafa innan sömu fjölskyldu en í slíkum handritum er efnið oft á ýmsan hátt tengt fjölskyldunni, t.d. vöggukvæði til barnanna, kveðskapur eftir einhvern úr ættinni eða erfiljóð um einhvern úr fjölskyldunni. Og það fólk sem hér um ræðir hafði einmitt allar forsendur til að hafa innan sinna vébanda konur sem höfðu menntun til að fást við skáldskap. Enda er það svo í Vigurbók að þar eru þrjú önnur kvæði sem eru eins og Jón Helgason segir annaðhvort "eftir konu eða kveðin í orðastað konu". Eitt þeirra mun vera þýðing úr þýsku því að í kvæðinu sjálfu segir: ort eftir því "er sá eg í þýzku máli" (7da er.) og vitað er að tvær konur nákomnar Magnúsi í Vigur, Kristín amma hans Guðbrandsdóttir og Halldóra systir hennar, höfðu einmitt fengið tilsögn í þýsku. Eitt myndar úr upphafsstöfum erindanna nafnið Signý Ólafsdóttir (Sála mín eg segi þér, bl. 220r), annað hefst svo: Einn guð í þrenningu, "ort af konu eða í orðastað hennar; hún er blind og biður guð að gefa sér sjónina", bl. 270r (Jón Helgason 1955:59). Úr upphafsstöfum má lesa nafnið Þorbjörg Guðmundsdóttir, það mun vera amma húsfreyjunnar í Vigur, föðursystir sr. Hallgríms Péturssonar. Og loks þýðing úr þýsku (bl. 104r): Nytsamar samstæður: Um allra alda aldirnar sem er eftir konu eða lagt henni í munn því að þar segir í þriðja erindi: "náðar pantinn gefi mér guð / er gjöri mig jafnan unga" (Jón Helgason 1955:45).

Sú niðurstaða að kveðskapur kvenna hafi yfirleitt varðveist illa kemur sjálfsagt engum á óvart. En vonandi hefur tekist að vekja athygli á því að handritarannsóknir eru á margan hátt forvitnilegar og nauðsynlegar þeim sem hafa áhuga á kvennasögu og kvennafræðum. Það á ekki síst við á Íslandi þar sem mun meira efni er hlutfallslega varðveitt í handritum en annars staðar. Þannig geta ítarlegar rannsóknir á efni íslenskra handrita gefið nýja og fyllri mynd af íslenskri bókmenntasögu. Í handritum er eins og áður segir helst að finna kveðskap eftir konur og þar eru einnig kvæði sem ort eru til kvenna. Hvort tveggja er verðugt rannsóknarefni. Þá er ekki síst áhugavert að athuga hvaða efni þau handrit geyma sem skrifuð eru handa konum.

 

Heimildaskrá

Óprentaðar heimildir:

Det kongelige bibliotek, København:

Add. 3 fol.

Landsbókasafn Íslands:

Lbs 162 8vo

Lbs 167 8vo

Lbs 360 8vo

JS 204 8vo

JS 471 8vo

Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi:

AM 148 8vo

 

Prentaðar heimildir:

Guðrún Ása Grímsdóttir. 1996. Um íslensku prestskonuna á fyrri öldum. Konur og Kristsmenn. Þættir úr kristnisögu Íslands. Reykjavík.

Guðrún P. Helgadóttir. 1963. Skáldkonur fyrri alda II. Reykjavík.

[Kålund, Kristian.] 1889. Katalog over den arnamagnæanske handskriftsamling I. København.

[Kålund, Kristian.] 1900. Katalog over de oldnorsk-islandske håndskrifter i Københavns offentlige biblioteker (udenfor den arnamagnæanske samling). København.

Helga Kress. 1997. Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur. Reykjavík.

Jón Halldórsson. 1911-1915. Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal II. Reykjavík.

Jón Helgason. 1955. Kvæðabók úr Vigur. AM 148, 8vo. B. Inngangur. Kaupmannahöfn.

Jón Þorkelsson. 1897. Vísnakver Páls lögmanns Vídalíns. Kaupmannahöfn.

Louis-Jensen, Jonna. 1992. "Om Ólíf og Landrés, vers og prosa samt kvinder og poeter." Eyvindarbók. Festskrift til Eyvind Fjeld Halvorsen: 217-230. Oslo.

Margrét Eggertsdóttir. 1996. Í blíðum faðmi brúðgumans. Konur og kristsmenn. Þættir úr kristnisögu Íslands. Reykjavík.

Margrét Eggertsdóttir. 1997. "Unnusta aftur finnur ...". Bókahnútur brugðinn Ólöfu Benediktsdóttur fimmtugri 4. febrúar 1997:55-56 Reykjavík.

Marotti, Arthur F. 1995. Manuscript, print, and the English renaissance lyric. Cornell University Press.

Páll Eggert Ólason. 1926. Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi IV. Reykjavík.

Páll Eggert Ólason. 1952. Íslenzkar æviskrár: Frá landnámstímum til ársloka 1940 V. Reykjavík.

Stefán Karlsson. 1989. "Kvennahandrit í karlahöndum." Sögur af háaloftinu sagðar Helgu Kress 21. september 1989: 75-80. Reykjavík.

Úr AM 148 8vo, bl. 110r-111v: Einn kveðlingur er kallast náðasvæfill.