Skoðum "sannindin" fyrst. Ætli Einar Már eigi við stuttan inngangskafla, "Út úr "myrkri miðalda"", þar sem fjallað er um upplýsingarheimspeki Magnúsar Stephensens með hliðsjón af tímamótaritgerð Immanuels Kant, "Was ist Aufklärung?" - Hvað er upplýsing? Tilgangurinn er meðal annars sá að sýna fram á svipaðar hræringar innan heimspeki og frásagnarbókmennta á átjándu öld. Þar er í fáeinum línum vikið að túlkun Foucaults á sömu ritgerð, en hún birtist fyrir fáeinum árum í Skírni og er mikilvægur hluti af íslenskri upplýsingarumræðu; og um ritgerð Foucaults er sagt: "Ef gengið er að þessari túlkun..." (bls. 36-7) Varla á fullyrðingasemi Einars Más við þessa málsgrein. Ætli hann eigi þá við hugmyndasögulegan kafla, "Íslensk vísindabylting", þar sem fjallað er allrækilega um vísindalegar aðferðir sautjándu og átjándu aldar, meðal annars með hliðsjón af vísindaepistemi Foucaults (bls. 56). Þar er þó tæplega um svífandi alhæfingar að ræða, heldur er tiltekin greining notuð til að sýna fram á samhengi íslenskrar og evrópskrar vísindastarfsemi, auk þess sem henni er beitt "í beinu einvígi við afmarkað viðfangsefni", þ.e. fræðirit um náttúru Íslands eftir Jón Grunnvíking, Svein Pálsson og Eggert Ólafsson. Hér er vísindasaga Foucaults höfð til hliðsjónar af því hún varpar merkilegu ljósi á íslenskar heimildir, jafnframt því sem tekið er fullt tillit til annarra nútímarita um vísindasagnfræði. Textagreiningin sjálf skiptir samt sem áður mestu máli, settar eru fram skýringar sem hver og einn getur tekið afstöðu til; hvort rit Jóns Ólafssonar um sædýr og fiska, Icthyographia Islandica (1737), feli í sér "upplýsta" náttúrufræði eða ekki, svo dæmi sé tekið.
Varla á Einar Már við þetta - eða hvað? Ætli hann eigi ekki fremur við málsgrein í sama kafla sem hljóðar svona: "Hér verður ekki úr því skorið hvort um aðgreind þekkingarkerfi (epistemes) í skilningi Michels Foucault var að ræða á 18. öld..."(47) Einar Már virðist nefnilega gera því skóna, þrátt fyrir þessi ummæli, að kenning Foucaults um ólík "þekkingarkerfi" sem "séu á bak við alla þekkingu manna á einhverju ákveðnu tímabili og standi gjarnan öldum saman áður en þau víki fyrir öðru "þekkingarkerfi"", eins og það er orðað, sé viðtekinn sannleikur þessarar bókmenntasögu. Um þetta er fimbulfambað án frekari röksemda með yfirlýsingum sem þessum: "Ég á t.d. erfitt með að sjá hvernig menn eiga að geta skilið hugarfarslýsinguna bls. 50-52 í bókmenntasögunni án þess að þekkja kaflann um "prósa veraldarinnar" í riti Foucaults "Orðin og hlutirnir.""
Tekið skal fram að í umræddum kafla er fjallað með mörgum dæmum um íslenska náttúrudulhyggju, teikna- og fyrirboðatrú, til dæmis hjá séra Jóni Steingrímssyni, getið er hugmynda um lífræna heild, þar sem náttúran hefur "vitund" og talar til manna í táknum og fyrirboðum, þar sem dulið samsvörunar- eða líkingarlögmál tengir saman sýnileg og ósýnileg fyrirbæri; minnst er á spilverk efnislegra og yfirskilvitlegra krafta, jafnframt því sem vikið er að táknfræði fyrri tíma, afstöðu fólks til tungumáls og hvernig það dró líkingar um eigið líf af viðburðum náttúrunnar. Allt er þetta afskaplega þjóðlegt, þótt finna megi hliðstæður við evrópska dulspeki sextándu aldar (prósa veraldarinnar), en um hana hafa fleiri en Foucault vélað eins og Einar Már á að vita. Þá eru leidd rök að því að ritgerð séra Jóns um Skaftárelda (1788) sé "mótsagnakennd blanda, virk samræða í sálarlífi eins manns, hugmyndaleg deigla líkt og viðureign Eggerts við sálnafjallið nokkrum áratugum áður" (52). Lögð er áhersla á sambýli ólíkra grundvallarviðhorfa eða þekkingargerða hjá rithöfundum sautjándu og átjándu aldar, en tekið skal fram að ekki var um einangrað fyrirbæri að ræða, eins og sjá má af vísindasögu Þorsteins Vilhjálmssonar. Hann bendir til dæmis á að hjá frumkvöðli vísindalegrar heimsmyndar, Kóperníkusi, hafi mátt greina "sóldýrkun í ætt við trúarbrögð"; talað er um "nýplatónska dýrkun á dulrænu samhengi við tölur, tónstiga og rúmfræðimyndir" hjá Kepler; og um dulspeki Newtons, áhuga hans á biblíufræðum og gullgerðarlist, er sagt: "þá má það verða okkur nútímamönnum enn eitt umhugsunarefnið, hvernig svo ólíkir þættir sem dulspeki og vísindahyggja hafi þrifist svo vel í sama manninum." Jafnvel þótt ég hafi söguskekkjuna í huga, dugar það ekki til að eyða furðu minni á því að slíkt skuli rúmast "í einum og sama manninum!"" [[4]]
2
Sögugreining Bókmenntasögu III er gjörólík umfjöllun Foucaults í Orðum og hlutum (1966), því sýnt er fram á ósamkvæmni og mótsagnir sem hljóta að grafa undan kenningu um samfellt epistem eða þekkingarkerfi.[[5]] Þar er hins vegar tekið undir gagnrýni á sögulega goðsögn um vöxt og framfarir mannlegrar þekkingar, en samkvæmt henni reis sannleiksöld skynsemi, þekkingar og vísinda upp úr óskapnaði hjátrúar, fáfræði og úreltrar guðfræði eins og í hendingu en þó af nauðsyn, og var þessum atburði líkt við ljósbrigði að morgunlagi, bjartir sólargeislar ráku næturský og þokuslæður á flótta, og ljós hlutlægrar skilningsgáfu skein með sífellt meiri ljóma uns það stóð í hádegisstað á síðara hluta átjándu aldar. Þessi sögusýn hefur sett mót sitt á íslensk fræði til skamms tíma og útilokandi hugtökum verið beitt við hugmyndasögulegt mat, einkum þegar ritað er um sautjándu öld; talað er um ímyndun og hugaróra, hjátrúarvitleysu og broslegar bábiljur þegar fengist er við reynslu einstaklinga sem tóku trú og táknræn líkindi fram yfir sýnileg efnistengsl orsaka og afleiðinga. Þá hefur þekkingar- eða merkingarheimi fyrri alda oft verið afneitað með hugtökum úr siðfræði og læknisfræði, skrifað hefur verið af þótta um heimsku og hugaróra, blindu og jafnvel fár eða sjúkleika.[[6]]
Sagnfræði af þessu tagi fær varla staðist, enda sýnir félagssaga íslenskrar upplýsingar að hún réðst ekki af háleitum sannleikshugsjónum, heldur skiptu hleypidómar, hégómadýrð, þrákelkni og persónulegar illdeilur ekki minna máli, í stuttu máli sagt, það rigndi í upplýsingarsólinni. Upplýsingarmenn virðast hins vegar hafa blindast í herferðum sínum um skuggaheima "fáfræðinnar", dýramörsbirta þeirra átti að útrýma því sem í spónasvælunni bjó, rökkurdimmu alþýðlegrar reynsluþekkingar, en "ef satt skal segja", ritaði Jón forseti (1860), "þá skildu þeir harðla lítið, sem von var, þeir vissu ekki enn, heldur en Nikodemus, hvaðan vindurinn kom eða hvert hann fór. Til hvers á þá að láta sér svo drembilega, eins og maður þykist vita allt og skilja allt, og ekki vilja heyra annað nefnt".[[7]] Framsókn "upplýstrar skynsemi" hérlendis mótaðist af "andskynsamlegum" öflum, ef svo má að orði kveða, áróðri, ritskoðun, valdbeitingu og hagsmunaátökum, enda er skynsemin einungis ein aðferðafræði af mörgum, hefur verið skrifað, hvorki betri né verri en aðrar sem ýmist eru góðar eða slæmar, heiðarlegar eða óheiðarlegar, flóknar eða frumstæðar, mannúðlegar eða mannfjandsamlegar frá sjónarmiði annarra hefða.[[8]] Vísindabylting upplýsingarmanna náði auk þess ekki nema til lítils hluta þjóðarinnar, eins og sjá má af átökum um skáldskap og útgáfumál á seinni hluta nítjándu aldar (upplýsingaröld hinni seinni). Tilgátan um annað tveggja, fullkomin umskipti myrkurs og ljóss, hjátrúarfáfræði og skynsamlegrar þekkingar, hefur samt sem áður smitað út frá sér innan íslenskra fræða, enda gleymdist mörgum að upplýsingin var stefnuskrá en ekki eigind raunveruleikans. Við þurfum því ný hugtök til að lýsa hugsunum hinna dauðu, nýtt málfar sem útilokar ekki ákveðnar spurningar fyrir fram; einfaldar andstæður trúar og skynsemi, töfra og vísinda, dulhyggju og upplýsingar ná ekki utan um þekkingarheim sem var "samsett kerfi ólíkra og jafnvel andstæðra trúarviðhorfa", eins og Hjalti Hugason hefur orðað það, "þar sem hugmyndir frá forkristnum tíma, kaþólsk miðaldaviðhorf og lútersk trúartúlkun hafa ofist saman í fjölþætt munstur"[[9]]; við þurfum í þessu samhengi að tileinka okkur fræðilega hugsun sem kenna má við róttæka fjölhyggju og er andstæð kerfishugsun Foucaults í Orðum og hlutum. Bókmenntasaga III ber vitni um slíka viðleitni, en um Einar Má gildir líkt og marga fleiri að ósmiðnum verður allt að úrkasti, þannig að rétt er að reyna þolinmæði lesenda eftir því sem rými vinnst til, svo hver og einn geti metið um hvað málið snýst. Með það í huga verður hér á eftir haldið austur fyrir fjall líkt og í upphafi Bókmenntasögu III.
Með "þekkingargerðum" er hvorki átt við ómeðvituð, alltumlykjandi þekkingarkerfi, vísindaleg viðtök eða lögmálafléttur né meðvitaðar lífsskoðanir og opinber trúaratriði, heldur er miðað við vitsmunaleg form sem tengdust flokkun lífs og náttúru, hvernig fólk felldi reynslu sína saman í kerfi, af hverju eitt var öðru tengt á einn hátt en ekki annan. Talað er um töfraskilning, trúarskilning og vísindaskilning í þessu samhengi; töfragerðin miðaðist við dulúðuga samsemd manns og náttúru, sú næsta rakti allt sem fyrir bar til yfirnáttúrulegrar frumforsendu, en vísindagerðin byggðist á lögmálum mótsagna og orsaka. Þessar þekkingargerðir fléttuðust með ýmsum hætti saman á "lærdómsöld" og "upplýsingaröld", flækjan er hin sama hvort sem litið er til sextándu, sautjándu eða átjándu aldar, þótt hlutfall einstakra gerða sé með ólíku móti, enda varð þeim ekki hnikað með áróðri eða hrellirökum kirkju og valdhafa.
Sveinn Pálsson tilheyrir hvað þetta varðar sama "reynsluheimi" og Jón Guðmundsson lærði sem var manna dulvísastur og um leið fróðleiksfús á "vísindavísu"; "þá vantar ekki til utan meistara þekkingarinnar og reynsluna eður rannsak landsins", ritaði hann í Einni stuttri undirréttingu um Íslands aðskiljanlegar náttúrur. Rúmri öld eftir að þetta var fært í letur héldu tveir menn, Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson, upp í rannsóknarferð um landið, en orðspor Jóns lærða var þá með versta móti, hann var ekki lengur nefndur Plinius Íslands, heldur þótti hann ímynd hjátrúar og hindurvitna, fáviskulegrar sérvisku, eins og fram kemur í skrifum ferðalanganna. Þeir fundu ekki til skyldleika við töfraþulinn gamla, enda var splunkuný sól á himni héldu margir, sem fyrr getur. Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson ferðuðust sumarið 1750 austur í sveitir og var megintilgangur þeirra að kanna landskunnan goshver, Geysi í Haukadal, þrátt fyrir hrakspár fólks sem, eins og þeir skrifuðu síðar, "taldi það óleyfilegt að rannsaka slíka leynda dóma í náttúrunni, því að á slíkum stöðum kynnu að búa voldugir andar, sem þyldu ekki slíka forvitni".[[10]] Eggert og Bjarni létu slíkt sem vind um eyru þjóta, enda ætluðu þeir sér að skoða og sundurgreina íslenska náttúru, svipta hana dularklæðum sagnar og sögu með aðferðum samtímavísinda. Fortölurnar hvöttu þá miklu heldur til dáða, eða eins og segir um aðra ferð nokkru seinna, "löngun okkar til fjallgöngunnar fór stöðugt vaxandi, bæði til þess að afsanna öll þessi hindurvitni og af fleiri ástæðum".[[11]] Það var þó ekki laust við að færi um ferðamennina þegar til Geysis kom og lóðlínu hafði verið kastað niður í hverinn til að finna vatnsaugu í botni hans, því þá kom jafnskjótt upp heit vatnsgusa og var mildi að þeir sluppu óskaddaðir. Þetta endurtók sig og urðu þeir að flæmast frá við svo búið. Fylgdarmaður Eggerts og Bjarna varð að vonum skelkaður, enda var engu líkara, rituðu þeir síðar, "en að hér væri einhver skyni gædd vera, sem með þessum hætti varnaði okkur að skoða inni sín".[[12]] Þeir sáu þó brátt hvað þessu olli.
Eggert og Bjarni skoðuðu margar uppsprettur á Suðurlandi þetta sumar og á næstu árum, en þær höfðu oft vakið furðublandna óvissu, eins og sjá má af Konungsskuggsjá, þar sem eðli þeirra er tengt dauðanáttúru jarðelds og hafísa. Íslenskir goshverir eru samkvæmt þessu riti "að sumri náttúru sem eldur sá", því þeir gera allt að steini sem vatnið fellur á. Þetta er skýrt með dulúðugum samhrifum: "Og þyki mér þau líkindi mest til draga, að vatnið mun dautt vera, að það dregur til dauðrar náttúru hvaðvetna það, sem það vætir með sínu ádrifi, því að steinninn hefir dauða náttúru".[[13]] Hveravatnið bjó samkvæmt þessu yfir undarlegum áhrifakrafti sem ekki var hægt að skýra á náttúrulegan hátt, enda virðist hafa verið gert ráð fyrir andlegu eða djöfullegu eðli ákveðinna náttúrufyrirbæra; hafísinn við strendur landsins var fangelsi fordæmdra líkt og gígurinn í Heklu samkvæmt Konungsskuggsjá. Þessar hugmyndir hafa lifað á meðal landsmanna um miðja átjándu öld ef marka má skrif Eggerts og Bjarna, en í áðurnefndri ferð gengu þeir á Heklufjall eins og frægt varð, en litið er á hana sem táknrænt upphaf íslenskrar upplýsingar í Bókmenntasögu III. Hekla hafði lengi verið uppspretta furðusagna því sagt var að þar væri hyldýpishelvíti sem bergmálaði af harmagráti og kveinstöfum, auk þess sem hrafnar og gammar flygju umhverfis í kolsvörtum flokkum, enda átti fjallið að vera ókleift líkt og Snæfellsjökull. Eggert og Bjarni gengu á hólm við þessa trú með fjallgöngu sinni, landnámsriddarar þekkingar og vísinda, og komust þeir upp á tindinn um miðnætti hins 20. júní. Sáu þeir hvorki gjár, sjóðandi hveri, eld né reyk, heldur nýsnævi, jökla og stöðuvötn, enda var sumarnóttin björt sem dagur; og í fjarska sást einstakt, ferhyrnt fjall sem líktist "háreistri höll", Herðubreið. Þeir snéru því til baka sigrihrósandi eftir að hafa merkt sér tindinn, en við fjallsrætur beið þeirra fylgdarmaður sem kennt hafði höfuðverkjar og ekki viljað halda lengra; en "við héldum", rituðu Eggert og Bjarni síðar, "að hjátrú hans og ímyndun bannaði honum að nálgast hið skelfilega fjall".[[14]] Hann hafði nú hjarnað við og undraðist mjög að þeir kæmu heilir af fjallinu. Hið sama gilti um biskupinn í Skálholti sem átaldi þá fyrir fífldirfsku sína, hryllingur eldfjallsins var í augum hans veruleiki sem ekki mátti brjóta gegn eða vanvirða.
Hekluferðin 1750 er í Bókmenntasögu III tákn um ákveðna sögugoðsögn: framsókn vísindalegrar skynsemi sem á að hafa rutt ömurlegum hugarsorta og hjátrúarfáfræði úr vegi á upplýsingaröld. Eggert og Bjarni eru samkvæmt henni vísindahetjur sem brutu landið undir manninn með því að skýra og nafngreina; það sem áður vakti undrun og óhugnað, hrylling fyrirboða, banns eða djöfulsskapar varð að vitsmunalegu efni sem greint var í anda nýrrar hlutlægni, gengið var út frá efnislegu náttúrukerfi, vísindaleg lýsing kom í stað þjóðsögulegrar túlkunar, teflt var fram nýjum orsakaskýringum, hlutlæg sundurliðun leysti óræð hvörf og samlíkingar af hólmi. Veruleikinn var að sjálfsögðu flóknari en þessi sögugoðsögn gefur til kynna, því umræða upplýsingarmanna einkenndist þrátt fyrir yfirlýsta vísindahyggju af óvissu og tvískinnungi, togstreitu dulúðar, trúar og hlutlægni. Einfalt þróunarlíkan getur ekki lýst því sem gerðist í flæktum huga manna á þessum tímum, eins og nefnd eru fjölmörg dæmi um í Bókmenntasögu III.
Skrif Eggerts og Bjarna um hveri Suðurlands varpa ljósi á það sem hér var sagt, en í þeim er vatnið dauða skýrt á hlutlægan hátt, gerð er grein fyrir steingerðarmætti hveravatns, hvernig hverahrúður myndast á löngum tíma, að allt á sér náttúrulegar orsakir. Þeir etja kappi við þessar uppsprettur með nútímaleg mælitæki að vopni, lóðlínu og flotvog, jafnframt því sem gætt er raunsæis í lýsingum. Við fáum að vita um þvermál Geysis efst og við botn, dýpt gosskálar, hæð gosstróka, lengd þeirra og tíðni, jafnvel gildleika lóðlínu, auk þess sem notuð eru hlutlæg samanburðardæmi: skálin líktist trekt í lögun, dynkir á undan gosi minntu á fjarlæg fallbyssuskot. Lýsingin takmarkast með öðrum orðum við hið sýnilega, jafnframt því sem dregnar eru ályktanir um eðli og upptök einstakra linda. Hér voru raunsæismenn á ferð sem í engu sinntu sjúklegu ímyndunarafli, misskilningi og hjátrúarhindurvitnum að eigin sögn; reynsla, lýsing og rökfræðileg greining áttu að leysa fólk undan dularfullri náttúru sem það hafði samsamað sig við.
Eggert og Bjarni höfðu einfaldleika og skipulag að leiðarljósi, markmið þeirra var gott og gilt, en þeim var eins og öðrum um megn að hefja sig upp yfir samhengi síns tíma, enda er texti þeirra undarlega mótsagnakenndur ef að er gáð; ævintýrið brýst inn í lýsinguna jafnskjótt og því hefur verið hafnað, forsendur hennar leysast upp líkt og fyrir endurtekningarnauð. Hér er ekki um tilviljunarkenndan usla að ræða því niðurrifið er reglubundið, hvort sem litið er til lýsingar Geysis í Haukadal, Marteinslaugar í Haukadal, Grafarhvers í Hreppum eða Akrahvera í Ölfusi; athugun þeirra þróast ævinlega frá vísindalegri vissu inn í óstöðugleika þar sem flest er mögulegt, tala má um viðureign sem lýkur í undarlegu þrátefli. Í lýsingu Geysis er haft eftir Haukdælum að miklar gosstrokur boði regn og storm án þess að gagnrýni bregði fyrir, enda gætir fyrirboðatrúar víðar hjá Eggerti og Bjarna, svo sem í lýsingu Baðstofuhvers í Ölfusi, en gysi hann óvenjulega hátt með miklum hávaða og gufumekki átti óveður að vera í aðsigi. Hér er með öðrum orðum gert ráð fyrir duldum áhrifatengslum, flæði á milli mismunandi atburða, óræðum samhrifum sem svo má kalla. Þá eru rakin gömul munnmæli um Marteinslaug sem átti að hafa sprottið úr hörðum kletti með yfirnáttúrulegum hætti, auk þess sem vatnið var gætt lækningamætti að sögn. Eggert og Bjarni taka ekki afstöðu til þessa helgiævintýris, en "í raun og veru er það mjög einkennilegt", rituðu þeir síðar, "að vatnið sprettur hér upp í gegnum harða og þétta klöpp, sem er tvær álnir á hæð og þriggja álna breið".[[15]] Hér má glöggt sjá erfiðleika upplýsingarmanna sem hvorki gátu afneitað eigin reynslu né fundið skýringu í hinu yfirskilvitlega; lýsing þeirra mætir sinni eigin takmörkun, ónefnanlegu náttúruferli sem brýst undan þekkingu þess sem athugar og skráir. Samskonar óvissu gætir í lýsingu hverafugla sem áttu að hafa sést í Grafarhver og í Akrahverum, en þar er slegið í og úr, engu trúað og öllu samt, enda var erfitt að bera brigður á almenna sögn trúverðugra sjónarvotta. Ályktunum þeirra má skipta í þrennt, fyrst er sagt: "Ef þetta er satt, þá er þar um að ræða einn af leyndardómum náttúrunnar"; næst: "Hver má trúa því, sem honum trúlegast þykir"; og loks: "Við erum enn í vafa um þá". Þeim þykir þetta fuglafágæti vafasamt því það laut engum þekktum lögmálum, en híma samt við hverina í Ölfusi tímunum saman í von um að sjá til fuglanna, auk þess sem stærð þeirra, litarafti, vexti og sundlagi er lýst eftir sögn "skilorðra manna". Þá er getið ólíkra hugmynda um eðli fuglanna, að þeir séu gufumyndanir, náttúrulegar skepnur, draugar eða sálir framliðinna, án þess að úr þeim sé skorið. Var málið allt hið örðugasta úrlausnar.[[16]]
Dæmið að ofan sýnir að mínum dómi þekkingarvanda sextándu, sautjándu og átjándu aldar í hnotskurn, flækju reynslu, trúar og hugarflugs, raunsæis og dulúðar. Þetta var flókinn reynsluheimur sem fræðimenn seinni tíma hafa ofureinfaldað með hugtökum "hjátrúar" og "skynsemi", auk þess sem skipting lærdóms- og upplýsingaraldar hefur skapað skakka mynd. Heimildir þessara alda sýna allavega að mismunandi þekkingargerðir gátu verið virkar í skrifum sömu manna, þótt vægi þeirra væri misjafnt, sá hinn sami gat trúað á skrímsli og fyrirboða, þótt hann aðhylltist kristilega nauðhyggju og stundaði jafnframt hlutlægar náttúrurannsóknir; þjóðleg dulvísi, rétttrúnaður og vísindalegt raunsæi blönduðust iðulega saman, þótt eitt þekkingarform væri yfirleitt í forsæti. Höfundar sautjándu og átjándu aldar glímdu því ekki aðeins um opinberar lífsskoðanir heldur þekkingarfræðilegar forsendur þeirra; sannleiksmyndunin sem slík var vandamál eins og sjá má af ritgerðum, þar sem reynt er að ryðja nýjum hugtakabúnaði braut í gegnum "merkilegt afsönnunarferli", eins og það er orðað í Bókmenntasögu III. Ritgerðir upplýsingarmanna sýna auk þess að hugsunin sveiflast ekki aðeins á milli órökrænnar dulhyggju og vísindalegrar rökleiðslu heldur stjórnast hún oft af báðum í senn; þessir textar fela iðulega í sér opinskáa samræðu, boðið er upp á öndverða valkosti, jafnframt því sem mismunandi skýringar renna oft saman í mótsagnakennda blöndu, líkt og gerist um okkar eigin þekkingu.[[17]]
Hvað kemur þetta Fúkka við kann einhver að spyrja? Þeir sem hafa eitthvað kynnt sér sögugreiningu Foucaults sjá þegar að um allt aðra sögusýn er að ræða, því gengið út frá fjölbreytni, ósamkvæmni og mótsögnum í vitsmunalífi einstaklinga og söguskeiða. Hér er gert ráð fyrir að minnsta kosti þremur samtíða þekkingargerðum sem útiloka ekki hver aðra líkt og epistem Foucaults, auk þess sem þær eru að ákveðnu marki meðvitandi, þannig að samtímaleg umræða um forsendur þeirra er möguleg. Þessar gerðir eru auk þess raktar til tvenns konar hugsunarhátta (frumlægra reynslutengsla) sem flæktust með ýmsu móti saman, þótt upplýsingarmenn teldu sér trú um annað. Foucault gerði því hins vegar skóna (árið 1966) að vitsmunalíf hvers og eins lyti fastmótuðu reglukerfi er staðlar hugsun fólks um heiminn. Þá er dulhyggjuhugtakið notað um vætta- og fyrirboðatrú sem grundvallast hefur á samlífi manns og náttúru, enda er stundum heppilegra að nota hugtök töfra, goðvísi, þjóðtrúar eða samsemdar um slíka þekkingargerð.
Bókmenntasaga III byggist á mannfræðilegum rannsóknum sem hafa fyrir löngu leitt í ljós að hugarfar manns eða hóps getur verið dulúðugt eða vísindalegt eftir atvikum, að fólk getur lifað í ólíkum hugmynda- eða merkingarheimum í senn, hvort sem litið er til frumstæðra þjóða, upplýsingarmanna átjándu aldar eða okkar sjálfra nú á dögum. Dulhyggja Kóperníkusar, Keplers og Newtons sýnir að hér er varla um afbrigði að ræða; margir hugsuðir geta rúmast í einum líkama, ef svo má að orði komast. Það gildir einnig um minni spámenn, til dæmis Ólaf Davíðsson rithöfund og þjóðsagnasafnara sem ritaði í bréfi til föður síns árið 1884: "Það er undarlegt að vera mest interesséraður fyrir náttúrufræði og þjóðtrúarfræði. Maður skyldi þó halda, að þær ættu ekki miklum mun betur saman en Jehovah og Belsebubbur, en sú verður oft raunin á, að extrema se tangunt (andstæður mætast) og það undarleg í mannssálunni". [[18]] Þá er nokkurn veginn víst, hvað sem furðu Þorsteins Vilhjálmssonar líður, að nútímaeðlisfræðingar eru jafn flæktir innan í sér og Kóperníkus, Kepler og Ísak Newton, þótt ekki leggi þeir stund á stjörnuspádóma, hljómlist himintungla og gullgerðarlist. Það er varla einleikið hversu margir þeirra hafa hneigst til trúar og dulhyggju á seinni árum.
Fátt er eins vandmeðfarið og alhæfingar, segir Einar Már af þóttafullri spekt í ritdómi sínum. Því til sönnunar er vitnað í almennt inngangsyfirlit um sjálfsævisögur, þar sem höfundur leyfir sér að minnast á guðspjöllin eins og þær komi íslenskum bókmenntum við; hvað á svona bókmenntalegt rúlluskautahlaup frá fornöld, um miðaldir og endurreisn til íslenskra eldklerka að þýða, spyr Einar Már í forundran, og hvað um Guibert af Nogent og Pétur minn Abelard sem báðir sömdu persónulegar sjálfsævisögur á fyrri hluta tólftu aldar? Úr þessu verður mikið ritmoð hjá Einari, þvaðrað er um "alhæfingar úr smiðju Foucaults og félaga" sem komi í veg fyrir að litið sé á "stundlegar stefnur og strauma í bókmenntum og menningarlífi, víxlverkanir þeirra og árekstra". Hverjar eru svo alhæfingarnar? 1) Að játningar heilags Ágústínusar og lífssaga heilags Antóníusar hafi ásamt píslarsögu guðspjallanna mótað kristilega sjálfstúlkun fram á átjándu öld; 2) að þeim hafi fylgt aragrúi eftirlíkinga sem auðkennast af útþurrkun hins persónulega sjálfs; 3) að almenn skilyrði hafi skapast fyrir ritun persónulegra, veraldlegra sjálfsævisagna á endurreisnartímanum. Hér er ekkert fullyrt um getu miðaldamanna og einstök afbrigði, raktar eru skoðanir fræðimanna og íslenskar skriftir tengdar við almennt, sögulegt bókmenntaferli.
Ummæli Einars Más bera vitni um undarlega glámskyggni, því ekkert er minnst á efnistök Bókmenntasögu III, sem einkennast af andstöðu við alhæfingar um uppruna og þróun, jafnt hvað varðar hugmyndir, sjálfsævisögur sem skáldsagnagerð. Þar er þvert á móti lögð mikil áhersla á "stundlega strauma" frá einum áratug til annars, myndun ósamfellds samhengis, "víxlverkanir og árekstra", sem Einar Már þykist kalla eftir. Horft er fram hjá frásögninni sjálfri, greiningu viðhorfa, tegunda og tímabila, en einblínt þess í stað á hin illu áhrif Foucaults heitins, enda er að honum vikið ókristilega oft, fjórum sinnum alls á 929 blaðsíðum. Vöggur varð sannarlega litlu feginn í þetta sinn.
Hitt er annað mál að mörg vandamál eru enn óleyst, auk þess sem einstök hugtök þarfnast nánari skilgreiningar. Hver eru til dæmis tengsl goðvísi, lífsreynslu og erlendra áhrifa í ljóðlist nítjándu aldar, stendur hin gamla samþjappaða og tilfinningahlaðna heimsmynd okkur kannski nær en margur hyggur? Í Bókmenntasögu III er fjallað um þekkingarflækju sem setti mark sitt á skáldskap átjándu og nítjándu aldar, til dæmis Fjölnismanna, enda grefur hún undan hefðbundnum flokkunarhugtökum (lærdómur, upplýsing, rómantík, raunsæi); þau standast að mínum dómi hvorki fagurfræðilega, sögulega né heimspekilega skoðun. Þá er reynt að endurskoða hefðbundinn söguskilning, svo sem fyrr getur, en samkvæmt honum áttu skörp skil sér stað á átjándu og nítjándu öld; það sem áður tilheyrði staðreyndum varð að skáldlegu myndmáli eða því var útskúfað sem vitleysu og hjátrú. Spyrja má hvort þessi lýsing sé allskostar rétt; hættu landsmenn að hugsa heiminn í myndum á nítjándu öld, þegar forn goðvísi varð að bókmenntum, varpar ljóðagerðin kannski skýrara ljósi á ástand hugarfarsins en hlutlæg náttúrufræði, náði upplýsingin svokallaða í raun fram að ganga á þessu tímabili?
Við hljótum að spyrja okkur í þessu samhengi hvort hugurinn sé eins og veðurfarið íslenska, hvort dulúðug náttúrusýn hafi haldist lengur við hér en í nágrannalöndum, hvort tengsl reynslu og hugarflugs séu eða hafi verið með sérstöku móti hérlendis? Það má til dæmis ímynda sér sögulega rannsókn á hugmyndum ljóðskálda um hinar norrænu höfuðskepnur, frumöflin og eðli náttúrunnar, frá miðöldum til tuttugustu aldar; hvernig eldurís og hin óbyggða náttúra birtast í ljóðlist frá einum tíma til annars. Slík rannsókn hlýtur að grundvallast á íslenskum örnefnaforða, þjóðtrú, fræðum og æviheimildum, þó freistandi sé að rekja allt til þýskdanskrar rómantíkur; er alveg víst svo dæmi sé tekið að Bjarni Thorarensen hafi lært óbyggðaskynjun sína af útlendum bókum? Nauðsynlegt er að lesa sig í gegnum hefðbundið málskrúð, hugtaka- og líkingafrerann sem svo má kalla, að undirstöðu skilnings, frumafstöðu viðkomandi einstaklings, hvernig hann fann til sín í og gagnvart íslenskri náttúru.
Bókmenntasaga III fjallar um list og þekkingu með hliðsjón af skáldskap, þjóðtrú, ævisögum og fræðibókmenntum, en jafnframt því er hugað að sjálfsskilningi fólks á tímamótum, drepið er á sálarlíf og siðferði eins og þau má ráða af rituðum heimildum. Vikið er að kerfisbundinni sjálfsmótun íslensks bændasamfélags og kirkjulegum áhrifum: játningartækni, lífsögun og skyldubundinni þrautargöngu (meinlætahyggju), einstaklingsbundnu siðferði sem virðist hafa leyst upp á nítjándu öld, stundum með harmsögulegum eða neyðarlegum afleiðingum. Það gildir til dæmis um tvær kynslóðir sem kenndar hafa verið við Fjölni og Verðandi, en þær voru miklu líkari en virðast kann í fljótu bragði, bæði hvað varðar hugarfar, tjáningarhátt og hlutskipti; menn eins og Jónas Hallgrímsson, Konráð Gíslason, Benedikt Gröndal, Gestur Pálsson og Einar Hjörleifsson eru eins og steyptir í sama móti eftir á að hyggja; lýst er ferðalagi undan skugga krosstrésins,undan alltumvefjandi náttúru og undan stýrandi samfélagsmótun, til nýstárlegrar lífslifunar er einkenndist ákaflega oft af sálarlífskreppu sem blandast hefur áðurnefndri þekkingarflækju; mönnum virðist hafa reynst erfitt að samræma líferni, ljóð og þekkingu við breytt skilyrði. Hér er oft og tíðum vitnað í textabrot, smámuni eða aukaatriði sem opnað geta óvænta sýn um þoku túlkana og hugmynda að sérstöku lífi þess sem skrifar eða um er skrifað. Slíkir persónufleygar geta tengst afmarkaðri lýsingu samferðarmanns, tjáningu í ljóði eða bréfi, tilteknum atburði sem oft sýnir ósamræmi sjálfsmats og raunveruleika, persónulegs markmiðs og hugmynda annarra. Ég hef aldrei séð mann með eins dauð augu var sagt um Gest Pálsson þegar verst var fyrir honum komið í Höfn; hvaða áhrif höfðu þessar aðstæður á lífsskoðun hans og sagnaskáldskap, svo dæmi sé tekið? Hér liggja fyrir miklar heimildir, bæði prentaðar og óprentaðar, til dæmis í bréfum einstakra Hafnarstúdenta; þau varpa stundum skærara ljósi á tildrög, merkingu og gildi einstakra skáldverka, en lærðar hugmyndir úr erlendum tískubókum.
Sá sem fæst við menningu liðinna alda verður í ljósi alls þessa að brjóta viðtekin þróunarlíkön niður í huga sér, hann þarf að endurskoða eða leysa upp samband hugarflugs, þekkingar og skynsemi, komast undan fordómum sem birtast meðal annars í ógagnrýninni notkun hugtaka og dreissugri blekkingu um mannlega dómgreind: þótta þeirra sem í blindni trúa á eigin skynsemi, stundum undir yfirskini heimspeki og vísinda. Framsækin bókmenntasaga krefst gagnrýni og virkrar samræðu, að fólk sé reiðubúið að glíma við hugmyndir, hvaðan sem þær koma og hvort sem þær eru í tísku eða ekki. Það er því með ólíkindum og í raun stórfurðulegt að maður sem hefur svipað kjaftavit á bókmenntasögu og Grímur meðhjálpari á Biblíunni skuli veljast til að fjalla um Bókmenntasögu III í tímariti sem helgað er bókmenntum. Hvað í ósköpunum kemur næst, er manni spurn, verður Gróa á Leiti, nýuppuð úr kvöldskóla og glöð af hroka, fengin til að gagnrýna siðferði fjölmiðla, verður Þorsteinn matgoggur fenginn til að skrifa um íslenska matargerðarlist, Bárður á Búrfelli um framsýnar fjárfestingar og séra Sigvaldi um velsæmi í opinberri stjórnsýslu? Kannski er ekki vanþörf á slíkum aðgerðum, því samkvæmt lektornum í París vafrar nú vellyst í skipsförmum völskunum meður að íslenskum fræðaheimi, en honum til huggunar má benda á að sé sú raunin munu þær fljótlega frjósa í hel íslensku í veðri. Það vissi Bjarni.
{{1}}. Einar Már Jónsson: "Alhæfingar og takmörk þeirra". Tímarit Máls og menningar. 58. árg. (1997), 2. hefti, bls. 99-105.
{{2}}. Hér er að sjálfsögðu átt við það sem mér er eignað í höfundaskrá, þ.e. kaflana "Upplýsingaröld 1750-1840" (bls. 23-217), "Sagnagerð frá upplýsingu til raunsæis" (bls. 497-588) og "Sagnagerð frá þjóðhátíð til fullveldis" (bls. 769-882). Hér á eftir verður vitnað til blaðsíðutala ritsins.
{{3}}. Hér er um töluvert efni að ræða eins og sjá má af eftirfarandi skrá: Þorsteinn Antonsson og María Anna Þorsteinsdóttir: "Höfundurinn og sagan". Saga Ólafs Þórhallasonar. Álfasagan mikla. Skáldsaga frá 18. öld. Reykjavík 1987; Matthew James Driscoll: "Þögnin mikla. Hugleiðingar um riddarasögur og stöðu þeirra í íslenskum bókmenntum". Skáldskaparmál I. Reykjavík 1990; sami: "The sagas of Jón Oddsson Hjaltalín. Studies in the production, dissemination, and reception of popular literature in 18th- and 19th-century Iceland". Ópr. doktorsritgerð, Oxford 1994; Þröstur Helgason: "Tilurð höfundarins. Efling sjálfsverunnar á 18. og 19. öld í ljósi íslenskrar skáldskaparfræði". Ópr. MA-ritgerð, HÍ 1994; Eiríkur Ó. Guðmundsson: "Gefðu mér veröldina aftur. Um sjálfsævisöguleg skrif á átjándu og nítjándu öld með hliðstjón af hugmyndum Michels Foucault". Ópr. MA-ritgerð, HÍ 1995; Svanhildur Gunnarsdóttir: "Sagan af þeim engelska og nafnfræga Berthold". Ópr. MA-ritgerð, HÍ 1995; Steinunn Haraldsdóttir: "Í lystigarði ljúfra kála. Um Eggert Ólafsson". Ópr. MA-ritgerð, HÍ 1996; Steinunn Inga Óttarsdóttir: ""Þetta er ei annað en eins manns sjóferðaskrif". Annáll íslenskra reisubóka frá öndverðu til 1835". Ópr. MA-ritgerð, HÍ 1996; María Anna Þorsteinsdóttir: Tveggja heima sýn. Saga Ólafs Þórhallasonar og þjóðsögurnar. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands 1996.
{{4}}. Þorsteinn Vilhjálmsson: Heimsmynd á hverfanda hveli II. Reykjavík: Mál og menning 1987, 96, 289.
{{5}}. Sjá "Til varnar hjátrúnni. Um hellistálsýn í íslenskum fræðum". Fjölnir, 2. 1997.
{{6}}. Fjallað er í knöppu máli um hugtakið í grein minni "Orð og hlutir". Myndir á sandi. Greinar um bókmenntir og menningarástand. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands 1991. Sjá einnig Davíð G. Kristinsson: "Festa og fallvaltleiki orðræðunnar. Svar við spurningunni: Hvað gerir fornminjafræði Foucaults gagnrýna". Ópr. BA-ritgerð, HÍ 1996.
{{7}}. Jón Sigurðsson: "Íslenzkar alþýðusögur á þýzku eftir Dr. Konrad Maurer". Ný félagsrit gefin út af nokkrum Íslendingum. Tuttugasta ár. Kaupmannahöfn 1860, 191.
{{8}}. Paul Feyerabend: Science in a Free Society. Norfolk: NLB 1978, 8,30.
{{9}}. Hjalti Hugason: "Kristnir trúarhættir". Íslenzk þjóðmenning V. Trúarhættir. Norræn trú. Kristni. Þjóðtrú. Ritstjóri Frosti F. Jóhannsson. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga 1988, 330.
{{10}}. Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferðir þeirra á Íslandi árin 1752-1757. Eggert Ólafsson samdi. Steindór Steindórsson frá Hlöðum íslenskaði. 2. bindi. Reykjavík: Örn og Örlygur 1975, 170.
{{11}}. Ferðabók, 1. bindi, 161.
{{12}}. Sami st.
{{13}}. Konungs Skuggsjá. Speculum Regale. Magnús Már Lárusson bjó til prentunar. Reykjavík: Leiftur 1955, 35.
{{14}}. Ferðabók. 2. bindi, 161.
{{15}}. Sama rit, 173.
{{16}}. Sama rit, 176.
{{17}} Við erum nú á dögum sem áður fyrr "men for all seasons and engage inmany ways of worldmaking", ritar Stanley Jeyaraja Tambiah í nýlegri bók, Magic, science, religion, and the scope of rationality. Cambridge: University Press 1995, 108.
{{18}}. Ólafur Davíðsson: Ég læt allt fjúka - Sendibréf og dagbókarbrot frá skólaárunum. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja 1955, 121.