Latnesk ljóðagerð var kennd í latínuskólunum í Skálholti og á Hólum í líklega meira en tvær aldir samfleytt, eða frá síðari hluta sextándu aldar þar til að skólahald lagðist niður á þessum stöðum um aldamótin 1800. Jón Ólafsson úr Grunnavík (1705-79) sem stundað hafði nám í Hólaskóla 1720-22, minnist á þennan námsþátt í bók sinni Hagþenki, sem hann samdi í Kaupmannahöfn árið 1737 en út kom í Reykjavík 1996 í umsjón Þórunnar Sigurðardóttur. Rit þetta fjallar að nokkru leyti um hugmyndir Jóns um bestu hugsanlegu menntun hér á landi og því verður að varast að túlka orð hans sem lýsingu á hinu raunverulega ástandi hér á landi. Engu að síður hefur rit Jóns að geyma merkar vísbendingar um menntamál átjándu aldar og ekki síður um reynslu og kunnáttu höfundar á þessu sviði. Í fjórtánda kafla Hagþenkis farast Jóni svo orð um latínuskáldskap: "Þessu næst má hann (nemandinn) fullvel fara að lesa Prosodiam, hun talar um Qvantitatem Syllabarum, Pedes, Versus, adskilianleg genera carminum, og sijdst allra exercitia metrica, sem ad taka einn locum úr einhverjum poëta, setia i prosam, og láta sidan Unglingenn setia i Vers. Þad er nærstumm þvi sama, er menn kalla carmina fracta. Þar nærst lese hann poëtas sem fyr eru greinder, og ad giöra Vers, enn ei fyr, sem adur er sagt." (Jón Ólafsson 1996:44) Af þessum orðum Jóns svo og því sem á eftir fer í lýsingu hans á kennslu latneskrar bragfræði og ljóðagerðar er ljóst að hún tók mjög mið af verkum klassískra höfunda. Eðli málsins samkvæmt hlutu því að verða mikil klassísk áhrif í ljóðagerð af þessu tagi, einkum á meðan menn voru í námi og þeim var hreinlega ætlað að nýta sér fyrirmyndir frá þessum tíma.
Þótt ráða megi af orðum Jón Ólafssonar að rækileg kennsla hafi farið fram í latneskri ljóðagerð í latínuskólunum almennt er engu að síður ýmislegt óljóst varðandi það hvernig þessi miðlun fór fram. Jón getur þess að vísu að á hans dögum brúki menn mest Prosodiam Smetii (Landsbókasafn: Smet, Henrich (1537-1614). 1674. Prosodia in novam formam digesta. Amstelodami) og Claii (Claius, Johannes (1535-92). Prosodiæ Iohannis Claii … libri tres. Fyrsta útgáfa 1576. Wittenberg) og Ærarium Poeticum (ekki er vitað með vissu við hvaða verk er átt) til þess að breyta orðunum á ýmsa vegu og bætir síðan við "Fleira slijkt seger hans informator honum" (Jón Ólafsson 1996:46). Þó að þessi verk hafi eflaust verið gagnleg og kennarinn ötull hefur þetta eitt varla dugað til þess að menn öðluðust þá leikni í latneskri ljóðagerð sem þeir sýndu er fimastir voru í þessari list. Sá grunnur sem þessir menn byggðu á spannaði miklu víðara svið en það eitt að geta bundið mál sitt á latínu. Latnesk ljóðagerð varð því prófsteinn á almenna þekkingu höfundarins á latnesku máli og bókmenntum og menningu Grikkja og Rómverja í víðum skilningi. Gott latínuskáld sýndi afrakstur náms síns í heild.
Í þessu námi hefur kennslan vissulega skipt miklu máli, ekki síst við aðstæður eins og á Íslandi þar sem bókaskortur var tilfinnanlegur. Þrátt fyrir takmarkaða vitneskju um ýmsa þætti námsins, má þó í meginatriðum gera sér í hugarlund hvernig menn öfluðu sér þessarar víðfeðmu þekkingar. Í fyrsta lagi lærðu menn sinn Dónat, þ.e. safn beygingadæma, og síðan málfræði, Grammatica, og setningafræði, Syntaxis. Þetta var sú undirstaða sem varð að vera traust til þess að gerlegt væri að byggja ofan á hana. Í öðru lagi fóru menn svo fljótt sem auðið var að lesa texta eftir helstu höfunda klassískrar latínu, bæði óbundins og bundins máls. Til eru nefndir höfundar eins og Cornelius Nepos (100-25 f. Kr.), Curtius (1. eða 2. öld e. Kr.), Sallustius (86-34 f. Kr.), Justinus (3. öld e. Kr.), Livius (59 f. Kr.-17 e. Kr.), Caesar (100-44 f. Kr.) og síðast en ekki síst Cicero (106-43 f. Kr.). Af skáldum eru nefndir Plautus (250-184 f. Kr.), Terentius (190-159 f. Kr.), Phaedrus (1. öld e. Kr.), Ovidius (43 f. Kr.-17 e. Kr.), Vergilius (70-19 f. Kr.), Horatius (65-8 f. Kr.), Lucanus (39-65 e. Kr.), Statius (45-96 e. Kr.), Catullus (87-54 f. Kr.), Tibullus (d. 19 f. Kr.), Propertius (50-15 f. Kr.), Juvenalis (60-140 e. Kr.), Persius (34-62 e. Kr.), Martialis (40-102 e. Kr.), Lucretius (94-55 f. Kr.) og Manilius (1. öld e. Kr.). Varla hafa allir stúdentar verið vel að sér í öllum þessum höfundum en víst er að góðir námsmenn hafa náð að tileinka sér mikið af bestu bókmenntum fornaldar og um leið kynnst sögu, goðafræði, mælskulist og rökræðulist Grikkja og Rómverja.
Í þriðja lagi var það sú kennsla í bragfræði og ljóðagerð sem Jón minntist á og bækur sem fjölluðu sérstaklega um þann námsþátt. Auk þess hafa menn eflaust stuðst við orðasöfn, orðabækur og eigin uppskriftir ef þeir mundu ekki nákvæmlega atkvæðalengd orðanna. Þá voru og til söfn orðatiltækja og ýmis hjálparrit eins og Gradus ad Parnassum (Landsbókasafn: Aler, Paul. 1699. Gradus ad Parnassum. Coloniæ Agrippinæ) sem er uppflettirit sem sýnir lengd atkvæða í orðum og notkun þeirra í hinum ýmsu bragliðum og bragarháttum. Þótt þessi bók hafi verið til hér á landi er þó með öllu óvíst hversu útbreidd notkun hennar hefur verið.
Því hefur nú þegar verið slegið föstu að um mikil klassísk áhrif hafi verið að ræða í latneskum kveðskap Íslendinga. Þar með er hins vegar ekki sagt að þau hafi verið jafn mikil hjá öllum þeim sem fengust við að yrkja á latínu eða af sama toga spunnin, sér í lagi eftir að hefðbundnu námi lauk. Viðfangsefni þessarar greinar er ekki að sýna hve umfangsmikil klassísk áhrif hafi verið á þessu sviði heldur hvernig þau birtust. Áherslur manna í kveðskap voru oft mjög mismunandi þannig að mikla breidd má finna í latneskri ljóðagerð Íslendinga, þó svo að vissulega liggi um hana sameiginlegur þráður.
Til hægðarauka hefur verið reynt að flokka þessi áhrif í nokkra meginflokka, þótt mörkin séu ef til vill ekki alltaf skýr. Hér er ekki um heildarúttekt að ræða en fyrst og fremst tilraun til þess að skýra hvernig menn sem fengust við kveðskap á latínu nýttu sér hinn forna klassíska arf.
Ef við lítum fyrst á þá bragarhætti sem menn notuðu, er ljóst að algengast var að nota þá sem rómversku stórskáldin á 1. öld fyrir Krist hófu til vegs og virðingar í latneskri kvæðagerð og upprunalega voru komnir frá Grikkjum. Allir þessir bragarhættir byggðust á mismunandi lengd atkvæða, þar sem löngum og stuttum atkvæðum var raðað saman eftir ákveðnum reglum. Vinsælastir voru hexameter, sem Vergilius hafði náð hvað mestri leikni í og elegískur bragarháttur sem Ovidius notaði af mikilli bragfimi. Þó svo að ljóðrænum bragarháttum, sem Horatius fágaði af alkunnri list, hafi verið miklu minna beitt, eru þó varðveitt ljóð eftir Íslendinga undir a.m.k. fjórtán mismunandi lýrískum bragarháttum. Á þessu sviði eru klassísk áhrif því bæði augljós og mikil. Til eru þó undantekningar frá þessari meginreglu. Til að mynda orti Gísli Oddsson (1593-1638) Skálholtsbiskup kvæði til Ole Worm undir dróttkvæðum hætti (JS 400a 4to) og Hjörleifur Þórðarson (1695-1786) orti háttalykil á latínu undir íslenskum rímna og vísna bragarháttum, alls 44 erindi (Hjörleifur Þórðarson 1918). Þá orti Kolbeinn Þorsteinsson (1731-1783) erfiljóð um Guðríði Gísladóttur biskupsfrú í Skálholti með trokkeiskri hrynjandi en slíkt form var mjög algengt á miðöldum (Kolbeinn Þorsteinsson 1767).
Tungumálið miðast yfirleitt við klassíska latínu, þó svo að einstaka orð kunni að vera óklassísk, einkum sérnöfn sem klædd eru í latneskan búning. Í notkun tungumálsins má greina tvo þætti: almennt klassískt mál sem ekki verður eignað neinum sérstökum höfundi og orð og orðatiltæki sem vísa til verka ákveðinna höfunda. Hvar mörkin liggja milli þessara tveggja þátta er erfitt að segja. Hinn klassíski orðaforði var sameign þeirra er á latínu skrifuðu og því geta orð og orðatiltæki íslenskra latínuskálda verið frá mörgum komin. Því til sönnunar hversu strangt þeir héldu sig innan vébanda þessa orðaforða má benda á að það telst til undantekninga ef orð í þessum latneska kveðskap er ekki að finna í orðabókum klassískrar latínu. Ef athuguð eru dæmi og staðartilvitnanir í bestu orðabókum kemur hins vegar einnig oft í ljós hvaðan orð og orðatiltæki eru komin, einkum ef þau eru sjaldgæf. Slík notkun var mjög oft af ráðnum hug og í þeim tilgangi að minna á fyrirmyndir og líkja eftir þekktum höfundum (imitatio), eins og nánar er vikið að í kaflanum um líkingar. Greinileg dæmi um orðanotkun af þessu tagi eru t.d. humilisque myrica, lágvaxið mjaðarlyng, sem rekja má til Vergiliusar, Ecl. IV, 2: humilesque myricæ (Eyjólfur Jónsson 1991, 352), nomen et omen, nafn og fyrirboði, sem leiðir hugann að Plautusi, Persa IV, 625: nomen atque omen (Hans Bjarnason 1726; Páll Magnússon 1767, 129), sic itur ad astra, þannig er farið til stjarna, þ.e. til himna og ódauðlegrar frægðar, sem finna má hjá Vergiliusi, Aen. IX, 641 (Gunnar Pálsson 1767, 91) og concordia discors, sundurlynd samhertni, sem Lucanus notar í verki sínu sem oft er nefnt Pharsalia, I, 98 (Hálfdan Einarsson 1783. Sbr. 4.2.9.).
4.1. Uppbygging kvæðisins
4.1.1. Sönggyðjur og aðrir guðir
Í latínukveðskap er oft að finna ávarp til sönggyðjanna, músanna. Þær eru ákallaðar og beðnar að koma til þess að blása skáldinu andagift í brjóst, eða þeirra er minnst á einhvern annan hátt. Sönggyðjurnar eru ýmist nefndar í hóp eða aðeins ein, með almenna heitinu Musae eða Musa eða þær eru auðkenndar á einhvern hátt, t.d. mea Musa. Einnig er algengt að notaðar séu klassískar umritanir þegar þeirra er minnst, t.d. Aonides, Pierides, Castalides, Ardalides. Einnig kemur fyrir að sönggyðjurnar séu nefndar nöfnum sínum, ein, fleiri eða jafnvel allar níu, t.d. Calliope, Polyhymnia, Euterpe, Thalia, Clio o.s.frv. Aðrir guðir eru og oft nefndir í latneskum kvæðum, og þá sér í lagi Phœbus og Phœbe, þ.e. Appollon og systir hans Artemis, Pallas Aþena, systurnar þrjár tres sorores, skapanornirnar, einnig kallaðar Parcæ, og þokkagyðjurnar, Charites eða Gratiae.
4.1.2. Retorísk bygging
Í nýlatneskum kveðskap má einnig finna dæmi um mjög retoríska uppbyggingu kvæðis, þar sem niðurskipan efnis byggist á reglum klassískrar retoríkur. Eitt besta dæmi þessa er kvæðið Calliopes Respublica eftir Jón Vídalín, ort árið 1692. Í þessu mikla lofkvæði um ríki sönggyðjunnar Calliope sýnir skáldið ekki aðeins skáldgáfu sínu heldur einnig lærdóm sinn og færni í hefðum klassískrar ræðulistar og reisir með því móti gyðjunni Suada Skalholtina, þ.e. fortölugyðju Skálholts, merkan bautastein. Kvæðið skiptist greinilega í þrjá meginþætti: exordium eða propositio (1-13), expositio (14-285), sem síðan skiptist í smærri þætti í samræmi við það sem boðað var í inngangi kvæðisins, og loks lokakaflann, conclusio (286-320) sem ber einkenni hvatningar, exhortatio (Sigurður Pétursson 1994).
4.1.3. Ákveðin klassísk fyrirmynd að uppbyggingu
Dæmi er til um það að heildaruppbygging kvæðis sé sótt til ákveðinnar fyrirmyndar í klassískum bókmenntum. Má því líta svo á að hér sé um stælingu að ræða, og þá fyrst og fremst hvað hugmynd varðar frekar en orðalag. Samskipti guða og manna eru velþekkt í hetjukvæðum Hómers svo og í Aeneasarkviðu Virgils. Þar hafa Ólympsguðir oft afskipti af gangi mála á jörðinni, ýmist beðnir eða óbeðnir. Þessi afskipti bera mismikinn árangur og stundum eru jafnvel guðirnir ekki megnugir þess að breyta orðnum hlut, því að meira segja þeir verða að lúta valdi örlaganna. Með þetta í huga yrkir Hjörleifur Þórðarson (1695-1786) erfiljóð um Ísleif Einarsson sýslumann (1655-1720), þar sem réttlætisgyðjan Astræa fyllist harmi við lát Ísleifs, fer á fund Júppíters á Ólympsfjalli og reynir með mikilli mælsku að fá hann til að breyta því sem gerst hefur. En Júppíter getur ekki orðið við bón Astræu. Bæði verða þau að sætta sig við ákvörðun skapanornarinnar, Lachesis. Í sárabætur lofar Júppíter þó í lokin að hann skuli gera son Ísleifs, Jón (d. 1732), að lifandi eftirmynd föður síns. Erfiljóð þetta er mjög ólíkt flestum erfiljóðum þessa tíma og ber í senn vott um það mikla rými sem var að finna innan hefðar latínukveðskapar og einstaka færni og smekkvísi skáldsins sem tekst að skapa dálítinn leikþátt í ósviknum anda stórskálda fornaldar (Hjörleifur Þórðarson 1918-20).
4.1.4. Líkingar
Klassísk áhrif eru mjög áberandi í því hvernig líkingum er beitt í myndmáli nýlatnesks kveðskapar. Líkingar birtast ýmist sem þættir í meginuppbyggingu kvæðis eða hluta þess. Stundum eru þær tilgreindar beint, t.d. með orðunum sic og ut eða líkingin skilst á annan hátt. Líkingar geta verið með ýmsu móti:
4.1.4.1. Líkingar almenns eðlis
Þessar líkingar eru oft notaðar til þess að lýsa eiginleika manns. Dyggð, virtus, Þórðar Þorlákssonar (1637-97) er t.d. líkt við tré með djúpum rótum sem getur vaxið og borið ávöxt (Þorsteinn Geirsson 1672). Guðríði Gísladóttur (1707-66) biskupsfrú er líkt við blóm og ljóma ættjarðarinnar, patriæ flosqve jubarqve suæ (Bjarni Jónsson 1767, 104) og staðfestu hennar er líkt við skip sem haggast ekki í stormi vegna þess að traust akkeri heldur því, … retinet qvam fida salutis / Anchora, saxifrago navis nec solvitur æstu, … sem traust bjargræðis akkeri heldur og ekki brotnar skipið í þeim sjávargangi sem mylur klettinn (Bjarni Jónsson 1767, 102. Sbr. 4.2.12.).
4.1.4.2. Manni eða hlut líkt við ákveðna persónu eða fyrirbæri
Slíkar líkingar vísa oft til alkunnra atburða eða hluta úr goðafræði eða sögu Grikkja og Rómverja. Í erfiljóði um Gísla Magnússon (1621-96) sýslumann á Hlíðarenda segir Björn Þorleifsson (1663-1710) Hólabiskup að Gísli hafi gert Ísland sér skuldbundið með starfi sínu í þágu laga eins og Pompilius konungur hafi skuldbundið Róm og Sólon Aþenuborg (Björn Þorleifsson 1704). Jóni Vídalín (1666-1720) og postillu hans er líkt við Herakles og eirskelluna sem hann flæmdi Stymfalsfugla á brott með. Stymfalsfuglar eru hér tákn hins illa (Steinn Jónsson 1718-20). Jóni Vídalín er einnig líkt við risann á eynni Ródos sem lýsti mönnum (Guðmundur Steinsson Bergmann 1718-20). Áðurnefnd Guðríður Gísladóttir biskupsfrú verður hetjulegar við dauða sínum en hin ágæta Camilla sem Vergilius segir lesendum sínum frá af mikilli snilli í elleftu bók Aeneasarkviðu (Gunnar Pálsson 1767, 90).
4.1.4.3 Óbeinar líkingar
Þess háttar líkingar eru oft í einstökum hlutum kvæða og verða menn iðulega að lesa líkinguna út úr efnislegu samhengi textans. Er þá stundum verið að lýsa ákveðnu ástandi eða ferli og jafnvel verið að líkja eftir (imitatio) eða minna á verk eða einstaka hluta þess eftir þekkta höfunda. Í þakkarkvæði til norskra presta árið 1776, sem efnt höfðu til samskota til handa íslenskum prestum í þrengingum þeirra af afleiðingum fjárkláðans á Íslandi, sækir Gunnar Pálsson (1714-91) án efa efni úr fyrstu eklógu Vergiliusar. Frá ljóðlínu 86 og til loka ríkir búkolískur andblær í kvæðinu og orðin pascite, beitið, felices, sæl, pecus, kvikfénaður, og grex, hjörð, sem öll koma fyrir með stuttu millibili gegna öll mikilvægu hlutverki í eklógu Vergiliusar. Samanburðurinn ristir enn dýpra því að í eklógunni er minnst á smit sauðfjársjúkdóma og munurinn á stöðu Íslands og Noregs á sér vissa samsvörun í vesöld Meliboeusar og hagsæld Tityrusar sem eru aðalpersónur eklógunnar (Gunnar Pálsson 1776).
Í kvæðinu Calliopes Respublica (278-82) lýsir Jón Vídalín því hvernig drengur með sótthita er fenginn til þess að drekka beiskt meðal með því að borið er hunang á bikarinn. Í þessari lýsingu endurómar kafli úr verkinu De rerum Natura (I, 936-42) eftir rómverska skáldið Lucretius. Að vísu er orðanna hljóðan nokkuð ólík, en þó koma lykilorðin poculum, bikar, amarus, beiskur, og mel, hunang, fyrir á báðum stöðum (Sigurður Pétursson 1994). Í erfiljóði um Guðríði Gísladóttur líkir Einar Jónsson (1712-88) lífi manna og öryggisleysi við það að berast milli Scylla og Charybdis, Ehev! mortales inter S<c>yllam atqve Carybdim / versantur timidi; tutus ab hoste nemo, Ó vei! dauðlegir menn velkjast kvíðafullir milli Skyllu og Karybdís; enginn er öruggur fyrir óvini sínum. Hér er myndmál líkingarinnar greinilega sótt til frásagnarinnar af viðureign Ódysseifs við óvættirnar tvær Skyllu og Karybdís, eins og henni er lýst í tólfta þætti Ódysseifskviðu (Einar Jónsson 1767, 136). Til þess að sýna lítillæti eða gera lítið úr sjálfum sér eða kvæði sínu líkir Gunnar Pálsson sér við gæs sem gargar á meðal hljómfagurra álfta: Permitte argutos interstrepat anser olores,/ qvo mage cygneis afficiare modis, Leyf að gæsin gargi meðal hljómfagurra álfta, til þess að þú hrífist því meir af svanasöng. Hér beitir höfundur greinilega "imitatio" þar sem hann líkir eftir svo ekki verður um villst orðum sem finna má í níundu eklógu (36) Vergiliusar, argutos inter strepere anser olores (Gunnar Pálsson 1767, 89).
4.1.5. Allegoría
Allegoríu köllum við það meðal annars þegar lýsing eða frásögn táknar eitthvað annað en orðanna hljóðan kveður á um. Dæmi um slíkt tjáningarform má finna í brúðkaupskvæði sem Eyjólfur Jónsson (1670-1745) síðar prestur á Völlum orti 1696 (Eyjólfur Jónsson 1991). Í septembermánuði það ár gekk Einar Þorsteinsson (1633-96) Hólabiskup að eiga Ragnheiði Jónsdóttur (1646-1715) ekkju Gísla biskups Þorlákssonar (1631-84). Brúðgumi var 63 ára að aldri og brúður fimmtug. Í kvæðinu lýsir höfundur meðal annars þessu sérstaka hausti sem er þrungið lífskrafti líkt og vor og óttast ekki kulda sem framundan er. Eðlilegt er að túlka þetta sem allegoríu fyrir aldur brúðhjónanna sem óneitanlega mátti líta á sem haustdaga lífsins enda voru góðar óskir höfundar lítils megnugar því að Einar biskup lést tæpum mánuði eftir brúðkaupið. Nokkuð vinsælt virðist hafa verið að líkja brúði í brúðkaupskvæði við tunglgyðjuna, Phæbe, Diana (Skúli Þorláksson 1658) og brúðgumanum jafnvel við sólguðinn, Sol, Phæbus (Skúli Þorláksson 1658). Þessar líkingar geta einnig birst í formi allegoríu, t. d. í kvæði Eyjólfs Jónssonar, þar sem Phæbus og Hecate eru trúlega táknmyndir Einars og Ragnheiðar þótt þess sé ekki getið beinum orðum (Eyjólfur Jónsson 1991, 348).
4.2. Stílbrögð
Í latneskum kveðskap var algengt að beita stílbrögðum. Flest þeirra má rekja til grískrar skáldskaparhefðar, eins og reyndar heiti þeirra benda oft til. Mjög var misjafnt hversu mikið höfundar beittu þessu stílvopni og reyndar er þessi þáttur latínuskáldskapar lítt kannaður. Þau dæmi sem nefnd eru í því sem hér fer á eftir byggjast engan veginn á skipulegri rannsókn heldur eru þau valin til þess að gefa sýnishorn af því hvers íslensk latínuskáld voru megnug í þessum efnum.
4.2.1. Metafora (translatio): myndhverfing, myndhvörf
Þetta stílbragð er mikið notað og birtist í mörgum myndum. Til dæmis leiftrar maður sökum dyggðar eða guðrækni sinnar, virtute coruscans (Bjarni Jónsson 1767) og pietate coruscans (Hálfdan Einarsson 1781). Borgin Stafangur brennur af kappi, hoc accensa Stafangria zelo (Hálfdan Einarsson 1781) og af voninni leggur birtu, affulget Spes (Hálfdan Einarsson 1778). Maður í þungu skapi er keyrður sporum þunglyndis og reiði, tristitiæ stimulis compulsus et iræ (Jón Þorkelsson 1910, 315), ungum manni er lýst sem að hann sé í upphafi blóma sinnar æsku, primo flore juventæ (Eyjólfur Jónsson 1991, 352) og mælskur maður má sín mikils með þokkafullum straumi tungunnar, grato præpollens flumine lingvæ (Eyjólfur Jónsson 1991, 354). Ragnheiður biskupsfrú er kona sem ljómar af gjöfulum dyggðum, matrona micans virtutibus almis (Eyjólfur Jónsson 1991, 351) og þess er vænst að hún verði ætíð eins og vínviður fullþroska af klösum dyggða sinna, virtutum pulchros semper matura racemos (Eyjólfur Jónsson 1991, 355).
4.2.2. Metonymia (denominatio): "nafnskipti"
Metonymia birtist meðal annars sem efni í stað afurðar. Purpuralituð klæði voru taldar miklar gersemar í fornöld. Var liturinn unninn úr snigli sem einkum fannst við strendur Fönikíu við botn Miðjarðarhafs. Í skáldamáli var litarefnið, blóð snigilsins, eða jafnvel snigillinn notaður til þess að tákna afurðina. Sarranum ostrum, Verg. G. 2, 506 (Eyjólfur Jónsson 1991, 354) merkir samkvæmt orðanna hljóðan snigilsblóð frá borginni Sara sem var annað nafn á borginni Týros í Fönikíu sem fræg var fyrir vinnslu á purpuralit. Vergilius og Eyjólfur Jónsson nota þetta orðalag hins vegar til að lýsa því sem unnið hefur verið úr purpuralituðum dúknum. Metonymia er það einnig kallað þegar goð er notað í stað áhrifasvæðis þess. Thetis piscosa (Jón Jónsson 1783) er hin fiskisæla Þetis, en hún var sjávargyðja, dóttir Nerevsar sjávarkonungs. Hér er því vísað til hafsins og fiskigengdar þess, þó svo að varast beri að leggja of mikið upp úr skrautyrðinu (epitheton ornans) piscosa.
4.2.3. Synekdoche (comprehensio): "meðskilningur"
Þetta stílbragð er vel kunnugt sem pars pro toto (hluti í stað heildar). Tectum, þak, er t.d. oft notað í stað húss. Tecta Olympi eru þá húsin á Ólympsfjalli; þ.e. bústaðir guðanna. Í kristnu samhengi merkir þetta orðalag himnaríki og hér er því einnig um umritun að ræða (Jón Árnason 1739). Carina merkir kjölur og líkt og puppis, skutur, er það notað til að tákna skip (Jón Þorkelsson 1910, 322, 321).
4.2.4. Periphrasis (circumscriptio): umritun
Umritanir geta verið margs konar og er hér einungis tekin nokkur dæmi og eins og sjá má vísa þau mörg á einn eða annan hátt til guða eða þekktra persóna úr heimi sögu eða hetjusagna. Stjórnmálamaðurinn og rithöfundurinn Marcus Tullius Cicero (106-43 f. Kr.) hefur gjarnan verið talinn meistari latneskrar mælskulistar og eru áhrif hans á því sviði ómæld. Þegar fortölugyðjan, Pitho, er nefnd hin Túllíska, Pitho Tullia, er í senn verið að beita metonymiu og umritun. Heiti gyðjunnar er notað til þess að tákna eiginleika hennar og verksvið, mælskuna, eloquentia. Hin Túllíska fortölugyðja verður þá að mælsku Ciceros sem í raun merkir hinn mælski Cicero (Jón Jónsson 1783). Auroræ lachrymæ merkir orðrétt tár morgungyðjunnar Áróru en er umritun á dögg (Hálfdan Einarsson 1781).
Nestor konungur í Pylos á Grikklandi, sem var mönnum kunnur úr Hómerskvæðum, varð langlífur mjög. Mörg dæmi má finna um að menn umriti langlífi með einhverri skírskotun til Nestors. Til dæmis longos Nestoris annos, löng ár Nestors (Þórður Vídalín 1688), Pylio ævo, Pýlískur aldur (Gissur Bjarnason 1672), annos Pylios, Pýlísk ár (Jón Jónsson 1672), Pylios annos, Pýlísk ár (Eyjólfur Jónsson, Lbs 1251 4to), annis Nestoreis, ár Nestors (Eyjólfur Jónsson, Lbs 1298 4to) og Nestoreæ senectæ, elli Nestors (Eyjólfur Jónsson 1991, 356; Lbs 1251 4to). Arganthonius konungur í Tartessus á Spáni varð einnig gamall mjög og því mátti hæglega tákna langlífi með því að tala um Arganthonísk ár, Arganthoniacos annos (Eyjólfur Jónsson 1991, 355).
Krítverjar höfðu orð á sér fyrir að vera svikulir og því merkir krítversk tryggð, Cretica fides, hreinlega svik (Gísli Magnússon 1691). Samkvæmt einni sögusögn var Cadmus upphafsmaður stafrófsins. Hinar dökkleitu dætur Cadmusar, Cadmi nigellæ filiæ eru stafirnir í stafrófinu (Árni Þorvarðsson 1692) og sömuleiðis niðjar Cadmusar, Cadmi Soboles (Árni Þorvarðsson 1692). Í héraðinu Aóníu á Grikklandi var að finna heimkynni menntagyðjanna, músanna. Vegir og leiðir um lendur Aóníu, Aoniis viis, tákna því menntun og nám (Sveinn Jónsson 1672). Til þess að yrkja þurftu menn á aðstoð músanna að halda enda verða afkvæmi þeirra, Musarum foetus, kvæði (Jón Árnason 1739). Ekki gleymdu menn þeim þrautum sem Herkúlesi var gert að inna af hendi og umritunin Herculeos labores táknar því mikið erfiði og átak (Jón Þorkelsson 1910, 345). Loks má geta umritunar sem er almenns eðlis og ekki kennd við neitt sérnafn. Þegar talað er um blóð þrúgunnar, sangvis uvae (Brynjólfur Sveinsson, Ad beatam virginem, JS 318 4to), er vitanlega átt við safa hennar eða öllu heldur hina fullunnu afurð vínið.
4.2.5. Antonomasia (pronominatio): kenning, umritun
Þetta stílbragð er stundum notað til að tákna ákveðna persónu eins og þegar Árni Magnússon (1663-1730) er kallaður hinn íslenski Varro, Islandus Varro (Jón Þorkelsson 1910, 347). Marcus Terentius Varro (116-27 f. Kr.) var einn þekktasti og virtasti fjölfræðingur Rómverja og því var varla hægt að hlaða Árna meira lofi en að líkja honum við þennan mikla lærdómsmann fornaldar.
4.2.6. Litotes: úrdráttur
Úrdráttur er mikið notaður og er hér aðeins tekið eitt algengasta dæmið, necnon, sem í raun merkir "og ekki ekki". Seinni neitunin upphefur þá fyrri og merkir orðasambandið og eða einnig (t.d. skólasveinar á Hólum 1692, JS 400b 4to).
4.2.7. Iteratio: klifun
4.2.7.1. Anaphora: forklifun, endurtekning orða í upphafi tveggja eða fleiri setninga
Gaudeant … Gaudeant …Gaudeant, Fagni þeir o.s.frv. (skólasveinar á Hólum 1692, JS 400b 4to), Vivito …Vivito …Vivito, Lifi hann o.s.frv. (skólasveinar á Hólum 1692, JS 400b 4to), Qvid … Qvid, Hvað … hvað (Eyjólfur Jónsson 1991, 354), Unde … Unde, Hvaðan … hvaðan (Eyjólfur Jónsson, Lbs 1251 4to), Qvis neget … Qvis neget, Hver mundi bera á móti því … hver mundi bera á móti því (Eyjólfur Jónsson, Lbs 1251 4to), Sic … Sic, Þannig … þannig (Eyjólfur Jónsson, Lbs 1251 4to), Cur mihi non … Cur mihi non, Hvers vegna ekki mér … hvers vegna ekki mér (Eyjólfur Jónsson, Lbs 1251 4to), I … I, Far þú … far þú (Eyjólfur Jónsson, Lbs 1251 4to), Te … Te, Þig … þig (Eyjólfur Jónsson, Lbs 1251 4to), Vive … Vive, Lifðu … lifðu (Eyjólfur Jónsson, Lbs 1251 4to), Cernis hunc … Cernis hunc, Þú sérð hann … þú sérð hann (Jón Árnason 1739).
4.2.7.2. Traductio: endurtekning orðs í mismunandi myndum
Sem dæmi um slíkt orðalag má nefna varias varia res ratione, ýmsa hluti með ýmsu móti (Hálfdan Einarsson 1781), Vivite felices, felici vivite cursu, Lifið gæfusöm, lifið gæfusömu hlaupi (Eyjólfur Jónsson, Lbs 1251 4to) og Hæc hilaris hilarat, þetta gleður hina glöðu (Eyjólfur Jónsson 1991, 353).
4.2.8. Apostrophe (allocutio): ávarp
Lönd eru stundum ávörpuð til áherslu eða hvatningar eins og þegar Jón Vídalín (1666-1720) hvetur Ísland til þess að hafa sig upp úr sorg sinn vegna láts Þórðar Þorlákssonar (1637-97). Þar segir hann Surge, age, et aërios attolle Islandia cirros, Heyr þú Ísland, rís með haddinn reistan himinháan (Jón Þorkelsson Vídalín, In Obitum … Mag. Theodori Thorlacii). Og til að vekja athygli danskra stjórnvalda á stöðu Íslands er Danmörk ávörpuð á einfaldan en áhrifamikinn hátt með orðinu Dania! (Hálfdan Einarsson 1781).
4.2.9 Oxymoron: n.k. þversögn
Þetta stílbragð vísar meðal annars til þess þegar tveim hugtökum sem virðast andstæð og ósamrýmanleg er raðað saman. T.d. discordia concors sem þýða mætti með orðunum samhuga sundurlyndi (Hálfdan Einarsson 1781), og concordia discors sem merkir sundurlynd einhertni (Hálfdan Einarsson 1783. Sbr. 3.).
4.2.10. Interrogatio: spurning, þ.e. retorísk spurning
Slíkri spurningu er oft beitt til þess að tákna fyrirfram ákveðið neikvætt svar. Til dæmis Qvis neget … Qvis neget? , Hver mundi bera á móti því … hver mundi bera á móti því? (Eyjólfur Jónsson, Lbs 1251 4to. Sbr. 4.2.7.1.). Svarið er enginn.
4.2.11. Dubitatio: hik, oftast í formi spurningar
Slíkar spurningar eru oft notaðar til að tákna hik og óvissu eða jafnvel til þess að sýna að þeim sem spyr finnist ákveðin athöfn fráleit eða furðuleg. Spyrjandi er oft í fyrstu persónu. Qvid multis referam?, Hvers vegna ætti ég að fjölyrða (um þetta)? (Jón Jónsson 1672).
4.2.12. Traiectio (hyperbaton): fleygun
Það fyrirbæri þegar orð sem standa málfræðilega saman eins og t.d. nafnorð og lýsingarorðseinkunn eru skilin sundur af einu eða fleiri orðum. Þetta er mjög algengt í latínu bæði í óbundnu og bundnu máli. Til dæmis saxifrago navis nec solvitur æstu, og ekki brotnar skipið í þeim sjávargangi sem mylur klettinn (Bjarni Jónsson 1767, 102).
4.2.13. Hypallage adiectivi
Einkum notað um lýsingarorð sem stendur með öðru nafnorði en það á við í raun og veru. Til dæmis Hev! qvia tu thalami gloria nostra jaces, Ó vei, þar sem okkar frægð hjónabands er úti (orðrétt) í stað Ó vei, þar sem frægð hjónabands okkar er úti (Páll Jakobsson 1767, 112), certa violentia lethi, vís grimmd dauðans í stað grimmd dauðans vísa (Kort Ólafsson 1767, 124).
4.2.14. Personificatio
Þessu stílbragði er beitt þegar dauðir hlutir og hugtök eru gerð að lifandi þátttakendum í því sem er verið að lýsa. Til dæmis Suada: fortölur > fortölugyðja (Sigurður Pétursson 1994), Agathosyne, góðsemin (Jón Jónsson 1783), Et nostris fletus fletibus adde (Islandia) tuos!, Og auk þú (Ísland) gráti þínum við minn! (Jón Þorkelsson Vídalín, In Obitum … Mag. Theodori Thorlacii) og flet sancta Ecclesia mater, grætur heilög kirkjan móðir (Jón Vídalín, In Obitum … Mag. Theodori Thorlacii).
4.2.15. Chiasmos: krossbragð
Krossbragð nefnist það þegar samsvarandi setningarliðir eru endurteknir í öfugri röð (a+b:b+a). Til dæmis Et facit incertam garrula fama fidem, Og masandi mælgin gerir trúnað ótryggan (Jón Þorkelsson 1910, 314), In scriptis vivis, vivis in ore virum, Í ritum þú lifir, lifir á tungu manna (Gunnar Pálsson, Lbs 1298 4to), Invenit vitæ gaudia vera novæ, (hún) hefur fundið sannan fögnuð nýs lífs (Jón Scheving 1767, 116) og omnia sub leges mors vocat atra suas, myrkur dauðinn kveður allt undir sín lög (Teitur Ólafsson 1767, 126).
4.2.16. Klimax: stígandi
Stígandi getur birst með ýmsu móti. Til dæmis með sama lýsingarorði sem fer stighækkandi, sis notus - sis notior - notior - notissimus, megir þú vera kunnur - kunnari - kunnari - kunnastur (Eyjólfur Jónsson 1991, 355).
4.2.17. Hendiadyoin
Þetta stílbragð felur í sér að tvö orð, oftast nafnorð sem standa hliðstætt, eru notuð til þess að tákna eitt hugtak eða fyrirbæri. Þegar Hálfdan Einarsson talar um proceres pietasqve, höfðingjar og guðrækni, á hann greinlega við proceres pii, guðræknir höfðingjar, eða procerum pietas, guðrækni höfðingja (Hálfdan Einarsson 1781).
4.2.18. Akrostikhon: griplur
Akrostikhon eða griplur er það kallað í kvæði þar sem fyrstu bókstafir í hverri braglínu eða í fyrstu línu hvers erindis mynda nafn eða setningu. Í kvæði sem Brynjólfur biskup Sveinsson orti til Jespers Rasmussen Brochmand (1585-1652) er bæði um akrostikhon og telestikhon að ræða. Það sem lesið er úr fremstu og öftustu stöfum hverrar braglínu er GASPARUS ERASMIUS BROCMANN og er kvæðið líklega ort á fjórða áratug 17. aldar (JS 92 8vo, JS 400a 4to). Annað dæmi höfum við um akrostikhon og telestikhon í einu og sama kvæðinu þar sem lesið er úr upphafsstaf hvers erindis og síðan úr síðustu stöfum erindanna. Það er í kvæði sem síra Kolbeinn Þorsteinsson í Miðdölum orti 1776 til að þakka norskum prestum fyrir veittan fjárstuðning enda eru skilaboðin sem fást úr upphafs- og endastöfum þessi: SIS SALVA MATER NORVEGIA ORAT NATIO TUA ISLANDICA, megir þú heil vera móðir Noregur, þess biður íslensk þjóð þín (Kolbeinn Þorsteinsson 1776).
4.2.19 Telestikhon: griplur
Telestikhon er það kallað í kvæði þar sem síðustu bókstafir í hverri braglínu eða í lok hvers erindis mynda nafn eða setningu. Sjá 4.2.18. Akrostikhon.
Framangreind dæmi sýna glögglega hversu fjölbreytt klassísk áhrif á latínukveðskap Íslendinga voru. Sumt af því sem þar birtist var vissulega kennt í latínuskólunum og allir sem útskrifuðust þaðan hafa kunnað grundvallaratriði þeirrar íþróttar að semja bundið mál á latínu, hvort sem þeir fengust eitthvað við það að skólanámi loknu eða ekki. En á þessu sviði eins og á flestum öðrum í mannlegu lífi var mikill munur á mönnum og hæfni þeirra. Þess vegna hafa menn erlendis gjarnan viljað greina á milli "versificatores" sem e.t.v. mætti kalla braggerðarmenn og þeirra sem kalla má með réttu skáld og báru af öðrum á þessu sviði. Erfitt getur reynst að skilgreina mörkin sem liggja þar á milli og ekki skal reynt hér að flokka íslensk latínuskáld á þeim forsendum. Þó skal þess getið að sú andagift sem sönggyðjurnar á Helíkonsfjalli blésu Íslendingum í brjóst var mismikil eftir mönnum og aðstæðum. Hins vegar er engum blöðum um það að fletta að sú fræðsla sem fram fór samkvæmt menntakerfi því sem Jón Ólafsson lýsir skilaði miklum árangri. Hún skipaði Íslendingum á bekk með öðrum þjóðum Vesturálfu við varðveislu sameiginlegs menningararfs, sem í aldaraðir auðgaði og örvaði andlegt líf íslenskra lærdómsmanna, eins og latínukveðskapur þeirra ber glöggan vott um.
Óprentaðar heimildir:
Lbs 1026 4to (kveðskapur eftir Jón Þorkelsson Vídalín).
Lbs 1251 4to (kveðskapur eftir Eyjólf Jónsson á Völlum).
Lbs 1298 4to (kveðskapur eftir Eyjólf Jónsson á Völlum og Gunnar Pálsson í Hjarðarholti).
JS 318 4to (Ad beatam virginem eftir Brynjólf Sveinsson).
JS 400a 4to (kveðskapur eftir Gísla Oddsson og Brynjólf Sveinsson).
JS 400b 4to (kveðskapur skólasveina á Hólum 1692).
JS 92 8vo, 26r-v (kveðskapur eftir Brynjólf Sveinsson).
Prentaðar heimildir:
Árni Þorvarðsson. 1692a. "Ad … M. Theodorum Thorlacium." Paradisar lykill. Skálholt.
Árni Þorvarðsson. 1692b. " Libellus Lectori." Calendarium Perpetuum:116-7. Skálholt.
Bjarni Jónsson. 1767. "Nænia … Gudridæ Gislavi Filiæ." Lijkpredikun … Gudrijdar Gisladottur:100-4. Kaupmannahöfn.
Björn Þorleifsson. 1704. "Piissimis manibus … Gislavi Magnæi" Útfararminning Gísla Magnússonar:B2. Hólar.
Einar Jónsson. 1767. "In Funus … Gudridæ Gislavi Filiæ." Lijkpredikun … Gudrijdar Gisladottur:136-7. Kaupmannahöfn.
Eyjólfur Jónsson. 1991. Sjá Sigurður Pétursson. 1991. Leuven.
Gissur Bjarnason. 1672. "Omnipotens Dominus rerum cui summa potestas." Panegyris Gratulatoria in Honorem … Dn. M. Theodori Thorlacii:4v-5r. Kaupmannahöfn.
Gísli Magnússon. 1691. "Ad … Dn. Theodorum Thorlacium." Sa store catechismus. Skálholt.
Guðmundur Steinsson Bergmann. 1718-20. "Eruditi sui seculi Phænici … Dn. Mag. Iohanni Vidalino." Huss-postilla, edur einfalldar predikaner … gjørdar af … Mag. Jone Thorkels syne Vídalín. Hólar. Ný útgáfa 1995. Vídalínspostilla:869-71. Reykjavík.
Gunnar Pálsson. 1767. "Ad Dn. Finnonem Jonæ … super morte ipsius uxoris Gudridæ Gislavi Filiæ." Lijkpredikun … Gudrijdar Gisladottur:88-93. Kaupmannahöfn.
Gunnar Pálsson. 1776. Charis Islandica. Kaupmannahöfn.
Hans Bjarnason. 1726. "Piissimis Manibus … Dn. Sigurdi Biørnonii." Einföld Lijk Predikun Hr. Sigurdar Biørnssonar:L-L2. Hólar.
Hálfdan Einarsson. 1781. Devotissimis precibus … pro Cleri Christiansandensis … munificentia. Christiansand.
Hálfdan Einarsson. 1783. Occasione … Sacri Ministerii. Kaupmannahöfn.
Hjörleifur Þórðarson. 1918-20. "In tristes exeqvias … Islebi Enari." Blanda I:8-10. Reykjavík.
Hjörleifur Þórðarson. 1918. Háttalykill Hjörleifs prófasts Þórðarsonar. Reykjavík.
Hugtök og heiti í bókmenntafræði. Jakob Benediktsson ritstýrði. 1989 (frumútgáfa 1983). Reykjavík.
Jón Árnason. 1739. "In Dactylismum Ecclesiasticum … Dn. Mag. Jonæ Arnæi." Dactylismus Ecclesiasticus. Kaupmannahöfn.
Jón Jónsson. 1672. "Tandem fausta dies, resplendet ab æthere celso." Panegyris Gratulatoria in Honorem … Dn. M. Theodori Thorlacii:3v-4r. Kaupmannahöfn.
Jón Jónsson. 1783. "Plurimum reverendorum … in Norvegia Antistitum … Liberalitatem." Kaupmannahöfn.
Jón Ólafsson. 1996. Hagþenkir. Þórunn Sigurðardóttir sá um útgáfuna. Reykjavík.
Jón Scheving. 1767. "Parentalia … Gudridæ Gislavi Filiæ." Lijkpredikun … Gudrijdar Gisladottur:115-7. Kaupmannahöfn.
Jón Þorkelsson Vídalín. S.a. In Obitum … Mag. Theodori Thorlacii. Kaupmannahöfn.
Jón Þorkelsson Vídalín. S.a. In Exeqvias … Gislavi Magnæi. Kaupmannahöfn.
Jón Þorkelsson. 1910. "Latínukveðskapur Jóns skólameistara Þorkelssonar." Æfisaga Jóns Þorkelssonar I:267-367. Reykjavík.
Kolbeinn Þorsteinsson. 1767. "Elegia." Lijkpredikun … Gudrijdar Gisladottur:94-5. Kaupmannahöfn.
Kolbeinn Þorsteinsson. 1776. Eleemosynæ Norvegicæ. Kaupmannahöfn.
Kort Ólafsson. 1767. "In Laudem … Gudridæ Gislavi Filiæ." Lijkpredikun … Gudrijdar Gisladottur:124-5. Kaupmannahöfn.
Menge, Hermann. 1965. Repetitorium der lateinischen Syntax un Stilistik. Vierzehnte Auflage. München.
Páll Jakobsson. 1767. "Domus Amplissimæ Familiæqve Illustrissimæ Sol … Gudridæ Gislavi Filiæ." Lijkpredikun … Gudrijdar Gisladottur:108-14. Kaupmannahöfn.
Páll Magnússon. 1767. "In Obitum … Gudridæ Gislavi Filiæ." Lijkpredikun … Gudrijdar Gisladottur:128-9. Kaupmannahöfn.
Sigurður Pétursson. 1991. "Nuptiæ Holanæ." Humanistica Lovaniensia XL:336-56. Leuven.
Sigurður Pétursson. 1994. "Jonas Widalinus Thorkilli Filiius:Calliopes Respublica."
Acta Conventus Neo-Latini Hafniensis:807-15. New York.
Sjöstrand, Nils. 1960. Ny latinsk Grammatik. Lund.
Skúli Þorláksson. 1658. Solennibus nuptiarum sacris … Dn. Gislai Thorlacii … nec non … Groæ Thorlevi F(iliæ). Kaupmannahöfn.
Steinn Jónsson. 1718-20. "Viro … Dn. Mag. Ionae Thorkeli Vidalino." Huss-postilla, edur einfalldar predikaner … gjørdar af … Mag. Jone Thorkels syne Vídalín. Hólar. Ný útgáfa 1995. Vídalínspostilla:866-7. Reykjavík.
Sveinn Jónsson. 1672. "Qui sua continuo macerabant membra labore." Panegyris Gratulatoria in Honorem … Dn. M. Theodori Thorlacii:2r-v. Kaupmannahöfn.
Teitur Ólafsson. 1767. "Elegeion … Gudridæ Gislavi Filiæ." Lijkpredikun … Gudrijdar Gisladottur:126-7. Kaupmannahöfn.
Tusculum-Lexikon griechischer und lateinischer Autoren des Altertums und des Mittelalters. Dritte, neu bearbeitete und erweiterte Auflage von Wolfgang Buchwald, Armin Hohlweg und Otto Prinz. 1982. Darmstadt.
Þorsteinn Geirsson. 1672. "Scilicet ut fixis alte radicibus hærens." Panegyris Gratulatoria in Honorem … Dn. M. Theodori Thorlacii:3r-v. Kaupmannahöfn.
Þórður Þorkelsson Vídalín. 1688. "Viro … Mag. Theodoro Thorlacio." Landnáma. Skálholt.