"Þess verður getið, sem gert er,"
sagði Goethe og skrifaði Werther,
lét hann ganga út á hlað
og gera það
sem gert er oftar en vert er.
(Þorsteinn Valdimarsson)
Í hinni margfrægu skáldsögu, Raunum Werthers unga, eftir leyndarráðið Jóhann Wolfgang Goethe segir frá miklu og skemmtilegu þrumuveðri sem gengur yfir meðan stendur á dansleiknum þar sem Werther kynnist Lottu. Eftir selskapsleik sem til er efnt til þess að leiða athygli ungra hispursmeyja frá þrumuveðrinu og draga svo úr ótta þeirra og felur í sér að þátttakendur fá löðrung þegar þeim fipast, segir svo í dagbók Werthers 16. júní:
"… þau kunnugustu drógu sig út úr, þrumuveðrið var liðið hjá, og ég fór með Lottu inn í salinn. Á leiðinni sagði hún: þau gleymdu óveðrinu og öllu út af löðrungunum! ég komst ekki til að svara henni. Ég var, hélt hún áfram, ein af þeim sem óttaslegnastar urðu, og þegar ég mannaði mig upp í að telja kjark í hinar, hvarf mér sjálfri allur ótti. - Við gengum út að glugganum. Enn heyrðust þrumur úr fjarska, dásamlegt regnið helltist yfir landið með þungum dyn, og hressandi ilm lagði í höfugum lofthitanum móti okkur. Hún studdi olnboganum á gluggakistuna, hún skyggndist út yfir nágrennið, leit til himins og á mig, ég horfði í augu hennar, full af tárum, hún lagði hönd sína yfir mína og sagði - Klopstock! - Mér kom óðar í hug hinn dýrlegi óður, sem hún hafði í huga, og ég gleymdi mér við straum tilfinninga, sem hún hellti yfir mig með þessu lykilorði. Ég yfirbugaðist, laut að hönd hennar og kyssti hana tárfellandi af sælu. Og leit aftur í augu hennar. Öðlingur! Hefðir þú horft í þessi augu og þau ekki séð sólina fyrir þér, þá gæti ég nú aldrei framar heyrt nafn þitt, svo tíðum vanhelgað, nefnt í mín eyru." (Þýðing Gísla Ásmundssonar. 1987:32-33.)
Um textann er fátt að segja, en þó skal tekið fram að síðustu málsgreinarnar hljóða svo á þýsku: "Edler! hättest du deine Vergötterung in diesem Blicke gesehen, und möcht’ ich nun deinen so oft entweihten Namen nie wieder nennen hören." Virðist þá ljóst að sá öðlingur sem þarna er ávarpaður er einmitt skáldið sjálft, Klopstock, því Lotta hefur einmitt tekið hann í guða tölu á þessari stundu.
Sama ár og Goethe skrifaði skáldsöguna um Werther hafði hann hitt skáldið Friedrich Gottlieb Klopstock, þá fimmtugan að aldri og nýbúinn að ljúka stórvirki ævi sinnar, Messíasi, sem síðar víkur svolítið að. Goethe hafði reyndar við orð að skáldið liti út eins og diplómat og það skilur maður ágætlega við að skoða myndir af Klopstock. Skýringin kann sumpart að liggja í því að hann hafði verið hirðmaður Danakonungs í næstum tvo áratugi þarna á undan.
Og svo getur verið gaman að leika sér meira að ártölum: það var einmitt árið sem þeir hittust, Goethe og Klopstock, sem þrítugur íslenskur prestur, að vísu hempulaus vegna ótímabærra barneigna, stóð fyrstur hérlendra með ljóðabók með veraldlegum kvæðum eftir sjálfan hann í höndunum. Þetta var Jón Þorláksson og átti eftir að verða þýðandi Klopstocks og fleiri stórmenna.
Friedrich Gottlieb Klopstock fæddist í Quedlinburg í Saxlandi árið 1724 og var því réttum tuttugu árum eldri en Jón Þorláksson. Hann var elsta barn vel stæðra foreldra sem komu honum fyrst í menntaskóla í Quedlinburg en síðan í einn af kunnustu furstaskólunum, Schulpforta. Á árunum 1740-1745 í þeim skóla virðist skáldskaparæð hans hafa opnast, og þar kynntist hann fyrst við klassíkina en síðan við það verk sem mestu varðaði fyrir feril hans, Paradísarmissi Miltons. Af þeim fundi spratt hið tröllaukna kvæði Messías og segir sagan að Klopstock hinn ungi hafi á einni nóttu gert áætlun um allt verkið - sem síðan tók þrjátíu ár að framfylgja. Fyrsta misserið eftir Schulpforta nam Klopstock guðfærði í Jena og síðan í Leipzig þar sem hann orti þrjá fyrstu söngva Messíasarkviðu og birtust þeir í Bremer Beiträge árið 1748. Þar með voru örlög ráðin.
Fyrstu söngvar Messíasarkviðu vöktu gífurlega athygli. Menn fóru þegar að skrifa um hinn þýska Milton og danski sendiherrann í París, reyndar af þýskum ættum, J.H.E. Bernstorff, hófst handa. Árið 1750 skrifar hann Klopstock og segist hafa vonir um að geta boðið honum danskan styrk til að ljúka þessu stórvirki og strax 1. ágúst sama ár berst skáldinu boð um að hann fái 400 ríkisdali á ári ef hann flytjist til Kaupmannahafnar. Þetta var ágætis tilboð og Klopstock virðist hafa þegið það glaður, og flyst til Hafnar í apríl 1751. Þar býr hann síðan og nýtur danska hirðlífsins og mikilla vinsælda auk hækkaðra launa, allt fram til þess að Struense kom til valda og Friðrik fimmti var fallinn frá. Árið 1770 forðaði Klopstock sér til Þýskalands en hélt reyndar launum til dauðadags og ekkja hans eftirlaunum.
Þetta var í skondinni Evrópu. Fyrirmyndin mikla að hirðlífinu, Lúðvík fjórtándi, var að vísu fallinn frá en andi hans ríkjandi. Frakkar voru svo hátt skrifaðir að til að mynda þýsk skáld nutu takmarkaðrar virðingar í heimalandi sínu, þar sem Friðrik 2. af Prússlandi leit niður á innfædd skáld og þýska menningu og kallaði til franska póeta. Sama ár og Klopstock fær boð um að gerast danskt hirðskáld kemur Voltaire til Þýskalands að yrkja. Engir voru spámenn í sínu heimalandi þá fremur en oft ella. Það er hins vegar líka athyglisvert að áhugi þýskumælandi þjóða á enskum bókmenntum um þessar mundir virðist verða til verulegrar endurnýjunar í þýskum bókmenntum. Einn þeirra mektarmanna sem hrifust af fyrstu Messíasarsöngvunum var til að mynda bókmenntapáfinn Johann Jakob Bodmer (1698–1783), prófessor við háskólann í Zürich, maður sem meðal annars hafði gert þýska lausamálsþýðingu af Paradise Lost. Þar fann Klopstock mikilvæga fyrirmynd, en hann sótti líka margt til annarra enskra skálda og enskrar fagurfræði:
Í ljóðagerð Klopstocks virðast reyndar ensku áhrifin hafa fundið sér skemmtilega samleið með öðrum áhrifum, þar sem er forrómantísk aðdáun hans á norrænum goðafræðum og skosk-gelískum ossíanisma. Það rann allt saman og féll í ljúfa löð eins og til að mynda kemur fram í fyrsta erindi kvæðis sem upphaflega hét "An meine Freunde" en við endurskoðun "Vingolf":
"Wie Gna im Fluge, jugendlich ungestüm
Und stolz, als reichten mir aus Iduna’s Gold
Die Götter, sing’ ich meine Freunde
Feiernd in kühnerem Bardenliede."
Hér syngur hinn ossíanski "bard" og nefnir til sögu Gná og Iðunni með gullin epli sín. Vísast hefur Klopstock fyrst kynnst norrænu goðafræðinni í Resensútgáfunni með latínuþýðingu 1665 (sbr. Böldl 1996:362) þótt mest beri á norrænum áhuga hans á síðara skeiði, eftir Kaupmannahafnarvistina og þá kemur vitanlega margt fleira til greina. Kvæði hans um valkyrjur og fleiri tignar persónur eru talin ein helsta kveikja þeirrar hrifningaröldu sem síðar gekk yfir og við getum ýmist lofað eða bölvað eftir því hvaða birtingarform hennar í þýskri menningu við hugleiðum.
Norrænum bókmenntum var það svo líklega happ að Klopstock skyldi dveljast svo lengi í Kaupmannahöfn, því svo er fullyrt að frá honum hafi Johannes Ewald fengið hug og dug til að gerast einna fyrstur manna atvinnuskáld í Danaveldi, og helga sig köllun sinni óskiptan.
Um hlut Klopstocks í þýskri bókmenntasögu eru menn ekki á einu máli. Stundum er sagt að hann sé dæmi um þess konar skáld sem meira máli skipti að hafa veður af en hafa lesið. Menn eiga með öðrum orðum að vera kjölfróðir en ekki lesnir í Klopstock. Með slíkum palladómum er hann þó fjarri því látinn njóta sannmælis.
Með nokkrum rétti virðist reyndar vera hægt að staðhæfa að Klopstock gjaldi stórvirkis síns, Messíasar, þegar felldir eru um hann dómar. Werther minntist á að nafn hans hefði oft verið "vanhelgað" og einmitt með útkomu skáldsögu Goethes er stundum sagt að "Messíasarskeiðinu" hafi lokið í þýskri bókmenntasögu og var þá þegar orðið alllangt. Hrifningaraldan sem reis með fyrstu söngvunum entist nefnilega ekki öll þau ár sem framhaldsins var beðið eða alla götu frá 1748 til 1773.
Fyrirmyndin í Paradísarmissi leyndi sér vissulega ekki en það er samanburðurinn við hann sem verður Messíasarkviðunni erfiðastur. Því söguljóðið sem Milton skapaði verður ekki endurtekið og Klopstock virðist alls ekki hafa ætlað sér það. Messías er ekki epískt verk með næstum holdlegum persónum og skýrum tíma í skilgreindu rúmi, það er miklu fremur tröllaukið ljóð, eða með orðum Billeskov-Jansen "Ljóðrænt kvæði í tuttugu söngvum í stað tuttugu ljóðlína." Það verður ekki sagan heldur rómantísk einhyggja sem svífur yfir vötnum Messíasarkviðunnar og í stað skýrra persóna koma táknmyndir. Og enn verður samanburðurinn óhagstæðari í íslensku gerðunum af því báðar eru smíðaðar af sama skáldinu, og þá einmitt skáldi sem lét epíkin betur en lýríkin og náði þess vegna bestu fluginu í Messíasi þegar brá fyrir persónulýsingum hetjukvæða og jafnvel ofurlítið æsilegum atburðum.
En það var einmitt í ljóðagerð, óðarsmíð, sem Klopstock reis stundum hæst. Hann var hagsmiður bragar, eins og Snorri hefði getað orðað það, klassískir hættir léku honum á tungu, eins og leynir sér ekki í Massíasi, og hann varð frægur fyrir að smíða sérstakan "skautaljóðahátt", yrkja smákvæði sem í hrynjandi leikur eftir þyt skautanna á ísnum. Eitt allra frægasta smákvæði hans er "Das Rosenband" sem tónskáld hafa spreytt sig á og hljóðar svona í tærum einfaldleik sínum
Im Frühlingsschatten fand ich Sie;
Da band ich Sie mit Rosenbändern:
Sie fühlt’ es nicht, und schlummerte.
Ich sah sie an; mein Leben hing
Mit diesem Blick an Ihrem Leben:
Ich fühlt’ es wohl, und wußt’ es nicht.
Doch lispelt’ ich Ihr sprachlos zu,
Und rauschte mit den Rosenbändern:
Da wachte Sie vom Schlummer auf.
Sie sah mich an: Ihr Leben hing
Mit diesem Blick’ an meinem Leben,
Und um uns ward’s Elysium.
En Klopstock hafði líka næmi til þess að sjá hvenær átti að láta klassíkina lönd og leið. Og það gerði hann í þeirri óðu sem nú skal rædd.
Kvæðið sem þau Werther og Lotta höfðu hrifust af orti Klopstock ekki í Kaupmannahöfn heldur í Lyngby í Danmörku. Þar átti hann sér athvarf og þangað hafði hann sem oftar leitað innblásturs í náttúrunni vorið 1759. Kvæðið birtist í tímaritinu Der nordische Aufseher sama ár og vakti mikla athygli. Það ber heitið "Die Frühlingsfeier", Vorhátíð eða Vorfögnuður og er talið marka spor í þýskri ljóðlist því það sé fyrsta fullburða ljóðið sem ort er undir algerlega frjálsu formi, rímlaust og með óreglulegum ljóðlínum. Í fyrstu gerð kvæðisins var erindaskipting óregluleg, en hér á eftir er fylgt lokagerðinni þar sem skáldið hafði skipað öllu í fjögurra lína erindi.
Ljóðið er óbundið en býr þó að mjög strangri myndbyggingu eða formgerð. Skáldið hefur gengið út í náttúruna til að gera bæn sína, votta sköpunarverkinu virðingu. Og snilli og yfirvegun skaparans sér hann ekki síst í hinu smáa. Þess vegna styðst hann við lýsingu Jesaja: "Sjá, þjóðirnar eru sem dropi í vatnskjólu og metnar sem ryk á vogarskálum. Sjá, eylöndunum lyftir hann upp eins og duftkorni." (Jes. 40:15). Hann tekur um leið að sjálfsögðu undir við frægt enskt skáld, Alexander Pope, um að maðurinn eigi að líta sér nær, "The proper study of mankind is MAN", sagði Pope. Klopstock beinir sjónum frá hæðum að hinni smæstu einingu sköpunarinnar. Fyrir sjónum hans verður grasmaðkur, undursamlegt dýr – en hugsanlega sálarlaust og þar með ekki eilíft. Þó er aldrei að vita, segir skáldið og hann sem vísar oss um "dimman dal dauðans leiðir", hann mun einnig veita okkur fullvissu þegar og þann veg sem honum þóknast.
Víðar er gripið niður í heilagri ritningu með beinum eða óbeinum tilvísunum, til að mynda er eyðandinn sem vikið er að í Vorfögnuði kominn úr annarri Mósebók þar sem boðað er að "Drottinn mun fara yfir landið til þess að ljósta Egypta. Hann mun sjá blóðið á dyratrénu og báðum dyrastöfunum, og mun þá Drottinn ganga fram hjá dyrunum og ekki láta eyðandann koms í hús yðar til að ljósta yður." (2. Mós. 12:23)
Vorfögnuður hefst með því að lýsa sköpunarverkinu eða sköpunarsögunni í stílfærðri örmynd og fer síðan um syndaflóðið til sáttmálsteiknsins, regnbogans. Það er leiðarvísir til þess að sjá hið stærsta í hinu smæsta en einnig til að lofa mátt og veldi þess Jehóva sem birtist í þrumunni og friðarboganum. Með þessu er gripið til aðferðar sem stundum er í bókmenntasögum kennd til rómantískrar einhyggju og er í sjálfu sér miklu kunnari í rómantík og nýrómantík okkar bókmennta en úr samtíma Klopstocks, þar sem ræturnar að hugsuninni liggja þó.
Án tengsla en þó með hliðstæðu í íslenskum bókmenntum nítjándu aldar er hin volduga frjóvgunarlýsing undir lok kvæðisins þar sem himinninn léttir á sér og fellir blessunarvökvunina yfir sárþyrsta jörð. Óneitanlega minnir þetta þýðandann á fangbragðalýsingar Bjarna Thorarensens í "Vetrinum" þar sem jörðin verður þunguð af viðskiptunum.
Í þýðingunni er kostað kapps um nákvæmni, þó svo það verði á kostnað skáldskapar. Við lok tuttugustu aldar þýðir því miður enginn átjándu aldar kvæði á það tungutak sem þá hefði átt við. Afsökun finnur nútímamaðurinn þá helst í því að tauta að ekki hefði þetta kvæði fallið vel að fornyrðislagi Jóns Þorlákssonar, þótt lipurt væri.
Um texta Klopstocks er fylgt Klopstocks sämmtliche Werke. IV. Leipzig 1854 en borið saman m.a. við útgáfu Günther Deicke og Uwe Berger í Deutsches Gedichtbuch. 1959. Berlin.
Í því sem segir hér frá Klopstock er einvörðungu farið eftir algengum dönskum og þýskum yfirlitsverkum. Skal þar aðeins sérstaklega nefnd F.J. Billeskov Jansen o.fl. 1972. Verdens litteratur historie. Bind 5. Oplysningstiden 1700–1750 af F.J. Billeskov Jansen. Politikens Forlag. Kaupmannahöfn. - Sérstökum áhugamönnum um vísindalega bragfræði skal bent á að í F. J. Billeskov Jansen og Gustav Albeck 1972. Dansk litteratur historie. Bind 2:192 (Politikens Forlag) er að finna danska þýðingu á kvæðinu "Der Eislauf", Skautahlaupið, þar sem gerð er grein fyrir hinni sérkennilegu skautahlaups-hrynjandi! Grein Klaus Böldl sem til er vitnað heitir ""Götterdämmerung" Eddufræði í Þýskalandi á 18. og 19. öld og áhrif þeirra á Richard Wagner." Skírnir, 170. ár (haust 1996):357–388. Baldur Hafstað þýddi.