Gaman og alvara í kvæðum Eggerts Ólafssonar

Höfundur:

[Byggt á erindi sem flutt var 3. febrúar 1996 á málþinginu Ljóðlist á átjándu öld]  

Einn er sá þáttur sem mér finnst hafa orðið út undan í umræðunni um bókmenntir íslenskrar upplýsingar og þá ekki síst þegar ljóðagerð Eggerts Ólafssonar ber á góma. Þar á ég við húmorinn. Upplýsing og siðferðileg alvara virðast vera eins konar samnefni í hugum margra. Ekki ætla ég að halda því fram að forsprökkum þessarar merku menntastefnu hafi ekki verið fúlasta alvara með áherslu sinni á gildi skynsemi og almennrar fræðslu. En aðferð upplýsingarinnar var ekki bara alvarleg heldur beittu höfundar hennar háði og kímni óspart fyrir sig. Og þar er Eggert Ólafsson engin undantekning. Þó er gjarna rætt um helsta verk hans, Búnaðarbálk, sem rímaða búfræðiritgerð - með öllum þeim ósegjanlegu leiðindum sem felast í slíku heiti. Að vissu leyti er þetta réttnefni á Búnaðarbálki sem er öðrum þræði ljóðræn ritgerð um búfræði, og ekki ætla ég að neita því að þar má finna erindi sem eru svo leiðinleg að þau gætu drepið naut. En innan um og saman við er líka bráðskemmtilegur kveðskapur sem á skilið að vera lesinn, og það sama á við um fleiri kvæði Eggerts. Ég ætla mér að sýna hér á eftir að Eggert geti verið hnyttið og skemmtilegt skáld, og að fyndnin í kvæðum hans sé reyndar oft ríkur þáttur í listrænni aðferð þeirra. Hún sé önnur hliðin á þeirri siðferðilegu alvöru sem einkennir bókmenntir þessa tímabils, enda lögðu rithöfundar íslenskrar og evrópskrar upplýsingar áherslu á það að blanda saman gamni og alvöru til þess að erindi skáldskaparins orkaði sterkar á lesandann. Þetta eru þættir í ljóðagerð Eggerts sem aðrir hafa bent á en mér finnst að hafi farið helst til lágt á síðari tímum.

Ljóðrænt leikhús

Í riti sínu um Eggert Ólafsson víkur Vilhjálmur Þ. Gíslason nokkuð að gamansemi í kvæðum skáldsins og bendir á að hún hafi þar ákveðnu hlutverki að gegna. Ég vitna ítarlega í umfjöllun Vilhjálms vegna þess að ég ætla að byggja á henni hér á eftir og gera frekari grein fyrir þessum athyglisverða þætti í kvæðum Eggerts.

Vilhjálmur kemst svo að orði um hin gamansömu kvæði skáldsins:

Eggert setti þjóðmálaskoðanir sínar þó ekki einungis fram í þeim kvæðunum, sem hann kallar alvarleg. Ádeilu sína einkanlega felur hann ekki síður í þeim kvæðunum, sem hann kallar kýmileg, og að nokkru í gamankvæðunum og kvæðum í gamni og alvöru. Kvæði eins og Sótt og dauði íslenskunnar og Tvídægra eða Sukkudokkabragurinn standa í beinu sambandi við alvarleg kvæði, eins og Búnaðarbálk, Ísland, Mánamál og Framverplu og svo siðakvæðin. Eggert hefur sjálfur vitað þetta vel, því hann segir um hin kýmilegu kvæðin, að þau sjeu "í rjettri raun tóm alvara með heimsádeilum, en alvaran er fólgin ýmist undir ýkjum eður dæmisögum".

Þessi kýmnikvæði Eggerts eru mjög merkilegur þáttur í kveðskap hans og í bókmentum samtíðarinnar yfirleitt. Þau eru að vísu misjöfn og stundum mishepnuð, og eins gamankvæðin. Kýmnin er stundum ekki kýmileg, og gamanið ekki gamansamt. Svo skeikar smekkvísinni alloft frá nútímans sjónarmiði. En Eggert hefur rjettilega og glöggar en aðrir sjeð það hvert vopn kýmnin og gamanið gat verið í viðreisnar- og siðvendnisbaráttu hans. Slíkt var að vísu ekki nýjung íslenskum kveðskap að öllu leyti. En kýmninni og háðinu var markvissar beitt hjá Eggerti en tíðkast hafði og form þess að ýmsu leyti nýtt. Koma þar sjálfsagt til greina nokkur áhrif frá þessháttar bókmentum, sem Holberg var helstur fulltrúi fyrir í norrænum samtímabókmentum (Vilhjálmur Þ. Gíslason 1926:222-223).

Ég er í öllum meginatriðum sammála því sem kemur fram í þessari stuttu greiningu Vilhjálms á hlutverki fyndninnar í kvæðum Eggerts, en ég held að efnið þurfi nánari athugunar við. Það eru ekki síst tengslin við erlendan samtímaskáldskap sem forvitnilegt væri að skoða betur í ljósi kímninnar í kvæðum skáldsins. Mig langar einkum til að vekja athygli á ákveðinni bók sem sýnilega hefur haft áhrif á Eggert og satt að segja opnaði augu mín fyrir því hvað fyndnin í textum 18. aldarinnar er fjölbreytt og yfirgengileg. Það er hið furðulega rit Christians Friderichs Wadskiær, Poetisk skueplads åbnet på det så kongelige som kostelige Christiansborgs slotsplads, sem kom út í Kaupmannahöfn árið 1741. Eggert vitnar í þessa athyglisverðu bók Wadskiærs í formála að kvæðum sínum en henni hefur ekki verið mikill gaumur gefinn hingað til svo mér sé kunnugt.

Vilhjálmur rétt minnist á bók Wadskiærs í riti sínu um Eggert og fer um hana heldur niðrandi orðum. Ekki veit ég hversu vel hann hefur kynnt sér bókina, en hann fer ekki rétt með titil hennar, kallar hana "Den poetiske Skueplads" (1926:189) með ákveðnum greini en bókin heitir Poetisk skueplads ..., þ.e. án greinis. Eitthvað hlýtur hann þó að hafa gluggað í bókina fyrst hann hefur svona ákveðnar skoðanir á höfundi hennar, nema hann hafi vitneskju sína um Wadskiær annars staðar frá, e.t.v. úr dönskum bókmenntasögum. Vilhjálmur minnist á tveimur stöðum á þennan danska höfund og í bæði skiptin á niðrandi hátt. Fyrri tilvitnunin hljóðar svona: "Var margt til Wadskiær’s að sækja af lærdómi, sem allur var í molum og ómeltum vísdómi, en minna af smekkvísi eða andagift" (1926:193). Síðar minnist hann á Wadskiær þegar hann ræðir um þær miklu neðanmálsgreinar og skýringar sem Eggert hafði með kvæðum sínum. Um þetta segir Vilhjálmur: "Þetta var einnig erlendur samtíðarsiður. Í ritum Wadskiær’s, sem Eggert vitnar í, er syndaflóð af þessum skýringum" (1926:198). Frekari umfjöllun um verk og áhrif Wadskiærs á Eggert er ekki að finna í riti Vilhjálms Þ. Gíslasonar um skáldið.

Þeir sleggjudómar sem lýsa sér í ofangreindum orðum um verk Wadskiærs eru ekkert einsdæmi og verður nánar fjallað um það hér á eftir. Það er því ekki við Vilhjálm einan að sakast í þessu efni, enda fóru danskir bókmenntafræðingar yfirleitt óvirðulegum orðum um höfundarverk þessa landa síns langt fram á 20. öld. Þeir hefðu eflaust tekið undir þau orð að Poetisk skueplads einkenndist af "lærdómi sem allur var í molum og ómeltum vísdómi, en minna af smekkvísi eða andagift" og sjálfsagt fallist á þann dóm að í ritum Wadskiærs væri "syndaflóð" af skýringum og neðanmálsgreinum. Út frá sjónarhóli og skáldskaparsmekk okkar aldar er líka margt úrelt og ósmekklegt í ritum Wadskiærs. En þá erum við líka að dæma verk 18. aldar á forsendum 20. aldar, að leggja mælistiku okkar tíma á verk sem var öðruvísi vaxið. Poetisk skueplads nær ekki máli ef mælt er á slíkan hátt, en það stendur alveg fyrir sínu ef það er metið á eigin forsendum, í umhverfi sinnar aldar. Það er a.m.k. ljóst að Eggert Ólafsson tók verkið gilt þó að það særi smekk fræðimanna síðari tíma eins og Vilhjálms Þ. Gíslasonar. Það er greinilegt að Eggert hefur tekið mark á "Próf. Vadskiær [ ]" eins og hann kallar Danann, enda tekur hann upp eftir honum umfjöllun um franska fagurfræði (Eggert Ólafsson 1832:7). Vilhjálmur viðurkennir líka óbeint að Wadskiær hafi verið hugsanlegur áhrifavaldur á hinar miklu neðanmálsgreinar og skýringar í kvæðum Eggerts. Ég held að áhrifin séu meiri en Vilhjálmur gefur til kynna í riti sínu og að Eggert hafi m.a. tekið mið af Wadskiær í merkilegri skilgreiningu sinni á þeirri sérstöku blöndu gamans og alvöru sem hann telur að einkenni kveðskap sinn.

Áður en lengra er haldið er rétt að gera nokkra grein fyrir því riti Wadskiærs sem hér um ræðir, Poetisk skueplads, sem kalla mætti Ljóðrænt leikhús á íslensku. Höfundur þess var hálfgerður furðufugl og sannast sagna ekki hátt skrifaður í dönskum bókmenntasögum lengi vel en hefur þó vaxið svo í áliti á síðustu áratugum að óhætt er að segja að Danir hafi enduruppgötvað eða kannski einfaldlega uppgötvað Wadskiær - því að hann átti aldrei miklum vinsældum að fagna meðan hann var á dögum. Framan af var gjarna rætt um hann í þeim niðrandi tón sem heyra mátti í áðurnefndum ummælum Vilhjálms Þ. Gíslasonar. Wadskiær var einkum legið á hálsi fyrir smekkleysi og lærdómur hans talinn sliga skáldskapinn. Það var helst að Wadskiær væri hælt fyrir að yrkja lipurt og létt þegar hann var í essinu sínu, en innihaldið var hins vegar ekki talið upp á marga fiska. Umsögnin í fyrstu útgáfu Dansk biografisk lexikon er dæmigerð, en þar er komist svo að orði:

W[adskiær]. besad baade Aandslivlighed, stor metrisk Lethed og en udbredt Belæsthed. Men hans Digtning var lige saa tom paa Indhold som udtværet og smagløs i sin Form, og hans Viden var polyhistorisk Sprænglærdom, anbragt paa urette Sted (Paludan 1904:150).

Wadskiær, sem fæddist árið 1713 og lést 1779, var fjölfróður maður með afbrigðum en hafði ekki þá dómgreind til að bera sem nauðsynleg er til þess að skipuleggja þekkingu sína og greina aðalatriði frá aukaatriðum. Um þetta eru bæði eldri og yngri fræðimenn sammála þó að þeir séu ekki á einu máli um skáldskapargildi verka hans. Wadskiær var sem sé maður sem lagði meira upp úr einstökum fróðleiksmolum en heilsteyptri hugsun í verkum sínum. Hann var m.a. undir verndarvæng hins áhrifamikla manns Eriks Pontoppidan og vann að ýmsum fræði- og útgáfustörfum á vegum hans. Árið 1747 varð Wadskiær prófessor í sögu í Sorø eða Sórey á Sjálandi (þar sem Ferðabók Eggerts og Bjarna Pálssonar var prentuð að Eggerti látnum árið 1772) og síðar varð hann prófessor í skáldskaparfræðum í Kaupmannahöfn. Frami hans var þó ekki eins glæstur og ætla mætti af þessu titlatogi. Hann þótti slakur kennari og sat ekki lengi sem prófessor í Sórey, var fljótlega sagt upp störfum þar (1751) og þótti ekki heldur standa sig vel í embættinu í Kaupmannahöfn.

En það er ekki lærdómsmaðurinn heldur skáldið Wadskiær sem nýtur aukins álits á okkar tímum. Er þá gjarna bent á hnyttilegt og alvörubundið háð hans, frjálsan leik hans með tungumálið og lipurlega kveðandi. Einn helsti sérfræðingur í danskri ljóðagerð 17. og 18. aldar, Ejnar Thomsen, dregur eiginleika Wadskiærs saman á þennan hátt:

Der er utvivlsomt momenter af stor og forsætlig komik i hans uigennemtrængelige alvorsmaske midt under hæmningsløse overdrivelser af udtryk for hyldest, sorg og glæde, en selvfølgelig administration af halsbrækkende paronomasier (lydleg) og næsten genial anvendelse (fx i Sorørefleksionerne) af den lige så mulighedsrige som vanskelige figur antiklimaks (Thomsen [1984]:221).

Það eru ekki síst tækifæriskvæði Wadskiærs sem nú eru metin að verðleikum, en í þeim þykir hann í senn færa sér lærðan stíl umliðinnar aldar í nyt og leysa upp þessa viðteknu og vinsælu bókmenntagrein - "en oprigtig anvendelse af 1600-tallets lærde stil med ironisk opløsning af genren" (Hougaard o.fl. 1983:374; um tækifærisljóð Wadskiærs sjá enn fremur Andersen 1934:197-204; Thomsen 1971:191-193; Billeskov Jansen og Albeck 1976:107-110). Þetta er einmitt mikið einkenni á Poetisk skueplads eða Ljóðrænu leikhúsi, þar sem er að finna frumlega blöndu á lærðum stíl og léttum og leikandi tækifæriskvæðum. Wadskiær var innan við þrítugt þegar þetta verk hans kom út árið 1741. Ljóðrænt leikhús hefst á fróðlegum formála höfundarins, og það er í þessum formála sem hann rekur þá frönsku fagurfræði sem Eggert vitnar til í áðurnefndum formála sem prentaður var með Kvæðum hans 1832.

Í heild er Ljóðrænt leikhús hið furðulegasta ritverk eins og ráða má af heiti þess, blanda af lærdómi og ljóðrænum ólíkindalátum. Meginefni bókarinnar er gamansamur kveðskapur og útúrsnúningar sem Wadskiær hefur ort um ýmsar hallir og konungleg setur í Danmörku. Hann skýrir svo kvæðin með ítarlegum neðanmálsgreinum og fræðilegum tilvitnunum, m.a. í íslenskar fornbókmenntir. Ejnar Thomsen kemst svo að orði um þetta rit að hinir lærðu skýringartextar höfundarins við kvæðin kunni að fæla lesendur frá, en bætir svo við: "arbejder man sig gennem pedanteriet viser navnlig Poëtisk Skue-Plads ... sig at indeholde en virkelig frisk kerne af veloplagt rejsejournalistik" (Thomsen [1984]:220). Ekki er ósennilegt að þessar skemmtilegu ferðamyndir Wadskiærs hafi höfðað til Eggerts, enda orti hann gjarna í léttum dúr um sínar eigin ferðir um Ísland eins og lesa má í prentuðum kvæðum hans. Eggert hefur kunnað að meta það uppátæki Danans að leggja út af Skíðarímu í Ljóðrænu leikhúsi sínu, en Wadskiær virðist hafa haft handrit íslenska kvæðisins undir höndum. Skíðaríma (sem og Tímaríma sem Eggert vitnar til í kvæðasafni sínu eins og síðar verður rakið) var kvæði sem var upplýstum 18. aldar mönnum mjög að skapi, enda er þar að finna samfélagslega ádeilu og háðska lýsingu á aðbúnaði kóngafólks í heiðnum goðaheimi sem séður er með augum fátæks alþýðumanns.

Auk þess að slá um sig með tilvísunum í íslenskar fornbókmenntir og norræna goðafræði vísar Wadskiær oft og einatt í klassískan kveðskap Grikkja og Rómverja, t.d. Hóras og Virgil. Hér er því margt sem minnir á aðferð Eggerts, sem var mikið fyrir að skýra ljóð sín með löngum neðanmálsgreinum þar sem hann sýndi þekkingu sína á fornum fræðum, íslenskum jafnt sem erlendum, Snorra Sturlusyni jafnt sem Hórasi og Virgli. Wadskiær auðkennir erlendar tilvitnanir með sérstöku letri eins og oft var gert í prentuðum bókum síðari alda. Hins vegar er hann svo tilvitnanaglaður í ólíkar tungur að æði margar leturgerðir geta komið fyrir á einni og sömu blaðsíðunni. Prentflötur bókarinnar verður því oft hinn skrautlegasti og er sjálfsagt með ráðum gert til að auka ánægju lesenda og vekja kátínu, enda var það yfirlýst stefna Wadskiærs að blanda saman gamni og alvöru í þessu riti sínu eins og fjallað verður um hér á eftir. En víkjum fyrst að kvæðum Eggerts.

Kvæði Eggerts

Kvæði Eggerts Ólafssonar með áðurnefndum formála skáldsins komu út 1832. Þau voru "útgefin eptir þeim beztu handritum er feingizt gátu" eins og segir á titilsíðu. Þar var þó ekki farið eftir óskum skáldsins um heiti kvæðasafnsins. Í tveimur eiginhandarritum Eggerts (Bibl. Bodl. 20722 = Mss. Bor. 81 og í JS 3 4to, handriti sem var í eigu séra Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal) er titill kvæðasafna hans svohljóðandi:

Nockur Ny Alþioðleg Islendsk kvæðe Ut af Heimspeke, Naatúruhlutum og Bæarlegum efnum; til siðbótar og fróðleiks, sem landsfólkinu sýnist þarft vera. Framsett ýmist í siðalærdómum og heimsádeilum, ýmist í alvarlegu Gamne Eður og skoplegre Alvaaru (Vilhjálmur Þ. Gíslason 1926:175).

Í þessum titli skáldsins er í fyrsta lagi að finna upplýsingar um efni kvæðanna, þ.e. kvæði út af heimspeki, náttúruhlutum og bæjarlegum efnum ("bæjarlegur" í merkingunni sveitalegur eða búskaparlegur); í öðru lagi upplýsingar um tilgang kvæðanna, þ.e. að þau séu ætluð til siðbótar og fróðleiks, og í þriðja og síðasta lagi lýsir titillinn aðferð kvæðanna, þ.e. að þau séu framsett ýmist í siðalærdómum og heimsádeilum, ýmist í alvarlegu gamni eður og skoplegri alvöru. Það er þetta síðasta atriði í titlinum sem ég vil vekja athygli á, að aðferðin sem beitt er í kvæðunum lýsir sér einkum í vísvitandi blöndu af gamni og alvöru. Svipaða áherslu má lesa út úr þeim einkunnarorðum sem Eggert hefur framan við kvæðasafnið í eiginhandarritum sínum, en eftir því hefur ekki verið farið í prentuðu útgáfunni 1832.

Eins og Vilhjálmur Þ. Gíslason hefur bent á koma einkunnarorð Eggerts fyrir kvæðunum úr þremur áttum: " ... hefur hann þrenn einkunnarorð, um hjarðmennsku, eftir Virgil, um siðgæði, eftir Hóras, og svo vísuna úr Tímarímu, að "margt er sér til gamans gert - geði þungu að kasta"" (Eggert Ólafsson 1953:xxiv; sbr. Vilhjálmur Þ. Gíslason 1926:176-177). Tilvísunin í Tímarímu er eftirtektarverð. Þó að Eggert undirstriki með henni skemmtigildi kvæða sinna, að þau eigi að létta mönnum lundina, má ekki gleyma því að Tímaríma er samtímaádeila þar sem háði og jafnvel groddalegum hlátri er óspart beitt til að grafa undan spilltum valdamönnum á Íslandi. Þetta er í samræmi við skilgreiningu Eggerts sjálfs á kvæðum sínum í fyrirsögninni sem hann vildi að væri notuð en hlaut ekki náð fyrir augum útgefendanna 1832, þar sem hann talar um siðalærdóma og heimsádeilur sem ýmist séu settar fram í alvarlegu gamni eður og skoplegri alvöru. Það er þessi blanda af gamni og alvöru sem einkennir mörg bestu kvæði Eggerts og er einmitt dæmigerð aðferð í bókmenntum upplýsingarinnar á Íslandi og úti í Evrópu.

Eggert fylgir þessari skilgreiningu eftir í niðurskipan efnisins í kvæðasafninu og rökstyður hana í formálanum sem prentaður er í upphafi útgáfunnar 1832, en hann kallast "Formáli skáldsins um þessi kvæði og þar hjá um vegleik og vanda skáldskaparins". Kvæðin flokkar Eggert eftir gamansemi og alvarleika. "Alvarlig kvæði" eru höfð í einum flokki, "Kímilig kvæði" í öðrum, "Kvæði í gamni og alvöru" í þeim þriðja og "Gamankvæði" í þeim fjórða, og þar á eftir kemur "Viðbætir". Eggert réttlætir þessa flokkun með lærðum rökum í formálanum og kemst svo að orði um skiptingu sína á kvæðunum:

Samt er efni kveðlínganna margskonar; og því hefi eg, að dæmum hinna nýrri skálda utanlands, sett hvört kyn í sitt stæði og raðað þeim eptir háleik og virðíng efnisins á þennann hátt:

Fyrst standa kvæði í tómri alvöru, þau eru annaðhvort almennilig, um siðbætur og heimsádeilur; eður sérlig um eina þjóð, vissa menn, verk og tilfelli; í annarri röð standa kímilig kvæði, þau eru í réttri raun tóm alvara með heimsádeilum; en alvaran er fólgin ýmist undir ýkjum eður dæmisögum. Þá koma hin þriðju kvæðin (serio-jocosa), hvar efnið er saman alvara og gaman, eins og í þeirri fjórðu röð eru einungis gamankvæði; þó mengast stundum þar með nokkur alvara. En fimmta röðin, í hvörri sjást margsháttar kveðlingar, mætti að sönnu uppskiptast á meðal hinna fjögra; samt þykir mér betur að láta hana opna standa, ef eg kynni að fá fleiri kvæði til viðbætirs, má þá eins síðar ef vill, setja hvört í sinn stað. Allar þessar raðir deilast í skipti, eftir þreyngð eður rýmd efnisins, og aftur sum af þeim stærri kvæðum í sínar smágreinir (Eggert Ólafsson 1832:3-4).

Eggert kveðst hér hafa erlenda flokkun til hliðsjónar og það má líka marka af tilvísun hans í "serio-jocosa". Eins og komið hefur fram vísar hann á öðrum stað í formála sínum í títtnefnt rit, Poetisk skueplads eða Ljóðrænt leikhús. Það verður að teljast afar sennilegt að Eggert byggi flokkun sína á því riti. Wadskiær fjallar um aðgreiningarvanda í formála sínum að Poetisk skueplads og notar einmitt sömu latnesku orðin og Eggert. Wadskiær kemst svona að orði í formála sínum: "Herved må jeg bede læseren, at han vel vil distingvere inter serio & jocose aut ironice dicta, thi ellers ville adskilligt klinge absurd." Wadskiær lætur sem sé lesandann um að greina sundur alvöruþrungið gaman ("serio & jocose") annars vegar og háðsk kvæði ("ironice dicta") hins vegar, biður hann m.ö.o. um að lesa þau af skilningi. Eggert tekur hins vegar að sér að greina kvæðin sundur fyrir lesandann út frá þessu sjónarmiði en það er allt annað en auðvelt. Svo notuð séu hugtök formgerðarstefnunnar er +/- gaman eða +/- alvara varla "aðgreinandi þáttur" í þessu samhengi. Enda lendir Eggert í ógöngum með flokkunina: aðalflokkarnir eru "mengaðir" eins og hann segir sjálfur ("í þeirri fjórðu röð eru einungis gamankvæði; þó mengast stundum þar með nokkur alvara"), hann verður auk þess að búa til óljósa milliflokka og að síðustu "opinn flokk" með kvæðum sem tilheyra hinum flokkunum.

En það væri ósanngjarnt að skoða skiptingu Eggerts einvörðungu út frá flokkunarfræði, enda var það líklega ekki megintilgangur hans að greina kvæðin sundur. Á það er einnig að líta að einmitt þessi mælikvarði á kvæðin leiðir í ljós markmið þeirra og aðferð: hina upplýstu notkun á mismunandi blöndu af gamni og alvöru til að opna augu lesenda fyrir fegurð og nytsemi heimsins og öðru því sem skáldinu þótti ómaksins vert að yrkja um. Eins og kunnugt er var "Gaman og alvara" vinsæll titill á upplýsingartímanum, m.a. notaður af Magnúsi Stephensen í útgáfunni Margvíslegt gaman og alvara í safni smárita og kvæða ýmislegra rithöfunda I-II (1798 og 1818). Þannig séð verður skipting Eggerts á kvæðunum öllu skiljanlegri: hún er ekki aðeins flokkun heldur og ábending um aðferð.

Í formála sínum að Poetisk skueplads fjallar Wadskiær mikið um hlutverk háðsins í alvarlegum skáldskap. Verður honum tíðrætt um gildi satírunnar eða hins ádeilukennda háðs. Spyrji menn hvers vegna hann sé satíristi í ritum sínum, segist hann spyrja á móti hvers vegna höfundar eins og Voltaire hafi gerst satíristar. Það er því ljóst að hann tengir háðslega aðferð sína m.a. þeim skáldum sem einna fremstir voru af höfundum evrópskrar upplýsingar, vill líkjast hinum beittu pennum sem nýttu háðið á markvissan hátt í verkum sínum. Wadskiær verður þó seint talinn hreinræktaður fulltrúi upplýsingarinnar, enda er margt í skáldskap hans sem minnir fremur á bókmenntir 17. en 18. aldar eins og ráða má af áhuga hans á höllum og konungssetrum. Í ritgerð sinni Barokken i dansk digtning telur Ejnar Thomsen Wadskiær til skálda síðbarokksins fremur en upplýsingarinnar og kemst svo að orði að í honum hafi barokkið eignast "sin sidste enlige kæmpe" (1971:193). Hinu verður þó ekki neitað að í blöndu sinni á gamni og alvöru í verkum eins og Poetisk skueplads líkist Wadskiær að nokkru leyti háðfuglum eins og Voltaire, og á það hefur einnig verið bent að hann hafi lært mikið af Holberg í siðferðilegri satíru sinni eða "Holbergsk påvirket moralsatire" eins og Ejnar Thomsen orðar það á öðrum stað ([1984]:221).

Eins og kom fram í tilvitnuðum orðum Vilhjálms Þ. Gíslasonar má vafalítið rekja hina ádeilukenndu gamansemi í kvæðum Eggerts Ólafssonar til þeirrar erlendu hefðar sem "Holberg var helstur fulltrúi fyrir í norrænum samtímabókmenntum" (sjá og grein Steinunnar Haraldsdóttur). Sjálfsagt hefur hinn frægi Holberg haft bein áhrif á bókmenntasköpun Eggerts, en áhrif hans hafa ekki síður verið óbein og ratað sína leið gegnum milliliði eins og Wadskiær.

Flokkar Eggerts

Eins og áður er nefnt er skipting Eggerts á eigin kvæðum ekki aðeins flokkun heldur og ábending um listræna aðferð hans, sem hér hefur m.a. verið rakin til Ljóðræns leikhúss eftir Wadskiær. Lítum nú nánar á helstu flokka kvæðanna í ljósi þessa:

A. Fyrst eru það kvæðin sem Eggert kallar alvarleg. Fremst er Ísland, sögulegt kvæði í alvarlegum dúr um Ísland og örlög þess. Þá kemur Búnaðarbálkur, en manni virðist þó að Eggert hefði eins getað flokkað hann sem blöndu af gamni og alvöru, enda er fyrsti hlutinn, Eymdaróður, hálfgerð satíra. Síðan taka við rímaðar siðferðiritgerðir, sem lýsa svo mikilli alvöru skáldsins að það verður næstum því hlægilegt. Eitt ljóðið heitir t.d. Píknaspillir og er efnið skilgreint svo í undirfyrirsögn: "um það, að meiriháttar stúlkur láti og látið hafi svo opt fallerast hèr á landi; kennist helzt um það hirðuleysi foreldra og illri siðvenju í hússtjórninni, hvar einginn munr er gjörðr á góðu og illu, háu og lágu, yfirráðum og undirgefni" (1832:50). Svipaðs efnis er annað kvæði sem heitir Helblinda og fjallar af siðferðilegri en um leið dálítið hlægilegri alvöru um forherðingu landans og hórdóm ýmiss konar sem aftur er rakinn til lélegs uppeldis og sinnulausra foreldra. Þá kemur enn eitt alvarlegt kvæði sem heitir Leiðarsteinn góðra farmanna í hafvillum heims þessa. Ljóðmælandi Eggerts er þar sá almenni vegfarandi sem þekktur er úr kristilegri hefð, vegfarandi á lífsveginum sem hefur villst af réttri leið en finnur hana um síðir með guðs hjálp, þegar hann kemur "til sjálfs sín og alvörunnar" eins og það heitir í millifyrirsögn skáldsins (1832:58).

Mörg önnur kvæði eru í þessum flokki alvarlegra kvæða. Má þar nefna hátíðleg ljóð um kóngafólk, þjóðholl kvæði ýmiss konar og síðast en ekki síst hin forvitnilegu kvæði sem Eggert kallar Ferðarollu. Þetta eru lausavísur sem hann kvað undir fornum háttum á ferðum sínum um Ísland og eru ekki alltaf alvarlegs eðlis. Eggert slær þar líka á létta strengi, eins og þegar hann yrkir um það er ferðafélagi hans, Bjarni Pálsson, missti hatt sinn í hver einn við Kröflu í Mývatnssveit. Það er auðfundið að Ferðarollan hefur t.d. haft áhrif á Jónas Hallgrímsson, enda eru þetta nýstárleg kvæði á íslensku, skáldlegar smámyndir sem brugðið er upp af ferðalagi um hrjóstrugt land. Það má benda á að Christian Wadskiær gerði mikið af þessu í ritum sínum, þ.á m. í Poetisk skueplads eða Ljóðrænu leikhúsi sínu.

B. Eggerti tekst hvað best upp í öðrum flokki kvæða sem hann kallar kímileg. Þar eru kvæði eins og Tvídægra, sem er eitt skemmtilegasta kvæði skáldsins og felur í sér hárbeitta hæðni sem minnir á Jonathan Swift, en í riti sínu um Eggert bendir Vilhjálmur Þ. Gíslason á að aðferð kvæðisins líkist nokkuð þeirri sem Holberg notar í verkum á borð við Nikulás Klím. Í Tvídægru berst skáldið í draumi til Sukkudokkalands, en Sukkudokkar eða fiðrildaveiðimennirnir eru í raun Íslendingar í álögum. Goðin hafa reiðst illu háttarlagi þeirra og gert þá dáðlausa, tekið frá þeim mannlegt eðli. Hér notar Eggert íronískan samanburð við íslenska fornöld, þegar Íslendingar voru ennþá mennskir. Tungumál þeirra hefur liðast sundur í erlendum straumum og núna talar þjóðin "Norðrálfunnar flestu sprok" eins og Eggert kallar það (1832:135). Hann skopast að málfari Íslendinga 18. aldar enda ötull baráttumaður gegn erlendum áhrifum á íslenska tungu.

Í þessum hluta bókarinnar, kímileg kvæði, er einnig að finna ljóðið Sótt og dauði íslenskunnar, en íslenskan er þar persónugerð sem gömul kona. Þetta eru í reynd tvö kvæði, og þar beitir Eggert grótesku háði. Þegar íslenskan lætur lífið nærist alls konar illþýði á líkinu og gjörnýtir það. Eru jafnvel étin úr því augun og innyflin. Dauðdagi hennar er allt annað en virðulegur, og Eggert skemmtir sér við það að setja saman "Grafarskrift eðr heldr Yfirskrift Íslenzkunnar", þar sem lík hennar stendur upprétt, smurt og forvarið. Yfirskrift hennar hljóðar svo (1832:130):

STATTU VID, ÞVÍ LEID ER LAUNG, LÚINN FERDAMADR! ISLENZKAN HÈR ÖNDUD STEND, EKKI GRAFIN, HULD NÈ BREND, ALDIR MARGAR MÖNNUM KEND, MUDAR HÈT MINN STADR; [þ.e. bjó í munninum] FYRIR BÚKHLAUP FALLID HEF, [þ.e. dó úr niðurgangi] A FÓTUM SEF; FARDU, MUNDU, GLADR!

Gamanið er grátt í þessu kvæði og bendir Eggert á í niðurlagi þess að alvara búi að baki (1832:131):

Nú er endað æfintýr efnis-stórt, en sögnin rír, alvaran hèr eflaust býr undir gerðar nafni; sár þó virðist sannleikinn, sönn og góð er meiníngin, veit eg allir vitrir menn veita dygða safni: túngu rètta telja snild, að tala skyld, taka ei allt í gamni.

Síðasta kvæðið sem nefnt verður í þessum flokki kímilegra kvæða eru Flöskukveðjur Eggerts, en þar í er hið fræga erindi "Ó, mín flaskan fríða!" Undirfyrirsögn kvæðisins er þessi: "Mjúk og skemtilig satýra, sýnandi inngáng, framgáng og útgáng drykkjuskaparins" (1832:144). "Ó, mín flaskan fríða" er líklega oftast lesið og sungið á síðari tímum sem meinlaus stemmningsvísa. En henni hefur upphaflega verið ætlað að bíta fastar og vera hárbeitt - og umfram allt fyndin - ádeila á ofdrykkju. Brennivínsberserkurinn sýnir flöskunni þá tryggð og tilfinningahita sem aðrir menn sýna eiginkonum sínum og ástmeyjum. En þegar flaskan er tóm orðin og eftirköst drykkjunnar farin að segja til sín snýst ástin upp í hatur og drykkjumaðurinn kallar flöskuna sviksama hóru.

C. Þriðji flokkurinn eru kvæði í gamni og alvöru. Þessi kvæði eru ekki eðlisólík þeim sem Eggert kallaði kímileg hér á undan; t.d. er í þessum flokki að finna Hegrakvæði, þar sem ort er um óminnishegrann fræga sem fylgir drykkju. Auk þess er hér að finna alls konar tækifæriskvæði, svo sem brúðkaupsvísur og stökur sem skáldið hefur ort af ýmsu tilefni.

D. Fjórði og síðasti aðalflokkur Eggerts eru svokölluð gamankvæði. Meðal þeirra er Hödduríma þar sem ort er um samspil sjávar og vinds. Hvort tveggja er persónugert í kvæðinu, aldan kölluð Hadda Ránardóttir og vindurinn Kári og Hræsvelgur jötunn, sem sagður er valda vindum í Snorra-Eddu. Úr þessu verður gamansöm og nokkuð blautlega orðuð ríma, ort undir baksneiddri braghendu. Ríman er kynnt svona í undirfyrirsögn Eggerts: "um ferð Höddu Ránardóttur til Kára og undrafullt samræði hennar við Hræsvelg jötun" (1832:201). Náttúruöflin eru þarna persónugerð með gamansömum hætti.

Í þessum flokki gamankvæða Eggerts er annað sem einnig snýst um persónugervingu sjávarins, þ.e. Ægisdrekka hin nýja, en Ægisdrekka er annað nafn á eddukvæðinu Lokasennu. Undirfyrirsögnin er: "Um þá mikiligu Vatnsfjarðar veizlu 1766, hvar Ægir, Rán og þeirra 9 dætr sátu að heimboði" (1832:216). Þetta er í raun stutt ríma, ort undir þeim hætti sem kallast stúfhenda. Kvæðið er hnyttið og skemmtilega ort. Eggert er sem fyrr að vegsama íslenska náttúru og það sem hún hefur upp á að bjóða. Í fjörunni er að finna ýmislegt ætilegt, og Ægir býður líka upp á drykk þó að ekki sé hann kannski bragðgóður: "Fullt er af rèttum fjöruborð, það fáheyrt er; / ölfaungin sjálfir færið þèr" (1832:217). En von bráðar grefur Eggert undan þessari þakklátu ræðu hins upplýsta náttúruunnanda. Sjórinn hefur í raun ekkert að gefa sem hefur gildi fyrir manninn sjálfan: "Hjá Ægis dætrum yndi’ og hita einginn fær: / afgamlar hrotur eru þær. // Ægis-drekkan er eins í þessum eyði stað, / því sullið hans er sjó-blandað" (tilv. rit: s.st.). Hér kemur því önnur og íronískari rödd inn í rímuna og útkoman verður ákveðið tvísæi í afstöðunni til sjávarins; hann er gjöfull en um leið sálarlaus með öllu.

Lokaorð

Hér hefur því verið haldið fram að ákveðin blanda gamans og alvöru sé snar þáttur í listrænni aðferð Eggerts Ólafssonar og sýni tengsl skáldskapar hans við skrif erlendra samtímahöfunda eins og Christians Wadskiær, ekki síst ef litið er á það hvernig Eggert flokkar kvæði sín. Ástæða væri til að athuga fleiri þætti í ljóðagerð hans í þessu samhengi. Fróðlegt væri að skoða skáldamál Eggerts í ljósi kímninnar, t.d. kenningar á borð við ása jukk sem hann notar um skáldskapinn (þ.e. skáldskaparmjöðurinn sem Óðinn spjó í ker ása, sannkallað jukk). Skoðun á skáldamáli Eggerts verður þó að bíða betri tíma. En áður en skilist er við þetta efni er rétt að reyna að benda á helstu einkenni húmors í kvæðum hans.

Segja má að í kvæðum Eggerts sé aðallega um þrenns konar húmor að ræða:

1) Góðlátleg kímni eða kankvís tónn. Í Búnaðarbálki, 2. erindi Náttúrulystar, yrkir Eggert um það þegar aldan fellur á ströndina. Þar má greina þennan kankvísa tón: "möglaði sjór við merskis brýn / melankólisku kvæðin sín" (1832:34).

2) Satírsk hnyttni, þ.e. háð sem ætlað er að hitta eitthvað sem miður hefur farið í heiminum, sbr. ýmsar heimsádeilur Eggerts sem rætt var um hér á undan.

3) Gróteskur húmor, eins og greina mátti í kvæði hans um Sótt og dauða íslenskunnar, þar sem hinir og þessir hámuðu líkið í sig.

Sjálfsagt mætti finna fleiri einkenni húmors í kvæðum Eggerts, og þar á meðal misheppnaða fyndni samkvæmt nútímasmekk, en nóg er af slíkum dæmum í ljóðum skáldsins. Stundum glottir lesandinn líka þegar skáldið hefur ekki ætlast til þess, hvort heldur það stafar af því að alvara Eggerts verður óvart hlægileg eða að skáldið gerir sig sekt um einhverja smekkleysu samkvæmt fagurfræðilegum viðmiðunum nútímans. Það er hins vegar merkilega oft sem Eggerti tekst að vera fyndinn, jafnvel í augum nútímamanna (a.m.k. þess nútímamanns sem hér skrifar), og um leið er þessi fyndni markviss og þrungin alvöru. Þessi blanda gamans og alvöru ber vott um áhrif frá evrópskri upplýsingu, en þó kemur það fyrir í kvæðum Eggerts að bak við hina upplýstu rödd heyrist önnur sem dregur gildi hinna upplýstu viðhorfa í efa, rödd sem felur í sér ákveðið tvísæi. Bestu kvæði Eggerts byggja á þeirri margslungnu blöndu af gamni og alvöru sem einkennir góðan skáldskap öðru fremur.

Heimildir

Andersen, Vilhelm. 1934. Illustreret dansk Litteraturhistorie. 2. b. Den danske Litteratur i det attende Aarhundrede. Kaupmannahöfn.

Billeskov Jansen, F.J. og Albeck, G. 1976. Dansk litteraturhistorie. 2. b. Fra Ludvig Holberg til Carsten Hauch. Kaupmannahöfn.

Eggert Ólafsson. 1832. Kvæði. Tómas Sæmundsson, Eggert Jónsson og Skúli Thorarensen bjuggu til prentunar. Kaupmannahöfn.

Eggert Ólafsson. 1953. Ljóðmæli. Vilhjálmur Þ. Gíslason bjó til prentunar og ritaði inngang. Reykjavík.

Hougaard, J. o.fl. 1983. Dansk litteraturhistorie. 3. b. Stænderkultur og enevælde 1620-1746. Kaupmannahöfn.

Paludan, J. 1904. "Wadskiær, Christian Frederik." Prentað í: Bricka, C.F. (útg.). 1904. Dansk biografisk lexikon. 18. bindi. Kaupmannahöfn: 149-154.

Thomsen, Ejnar. [1984] "Wadskiær, Christian Frederik". Prentað í: Bech, S.C. (ritstj.). [1984] Dansk biografisk leksikon. 3. útg. 15. bindi. Kaupmannahöfn: 219-221.

Thomsen, Ejnar. 1971. Barokken i dansk digtning. [Ritgerðin var skrifuð árið 1935.] Kaupmannahöfn.

Vilhjálmur Þ. Gíslason. 1926. Eggert Ólafsson. Reykjavík.

Wadskiær, Christian Friderich. 1741. Poetisk skueplads åbnet på det så kongelige som kostelige Christiansborgs slotsplads ... Kaupmannahöfn.